Obama ræðir við fjölmiðla

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna. AP

Barack Obama mun funda með efnahagsráðgjöfum sínum á morgun og í framhaldinu mun hann boða til blaðamannafundar, sem verður hans fyrsti frá því hann var kjörinn næsti forseti Bandaríkjanna. Menn eru sagðir bíða spenntir eftir því að fá að heyra hvernig Obama muni taka á efnahagsmálum landsins.

Obama tekur ekki við góðu búi úr höndum George W. Bush, fráfarandi Bandaríkjaforseta, en fjármálakreppan í heiminum er sú versta frá því þriðja og fjórða áratug síðustu aldar.

Obama er sagður vera undir þrýstingi að greina frá því hverja hann muni skipa í mikilvæg embætti er lúta að stjórn efnahagsmála, t.d. hver verði næsti fjármálaráðherra landsins.

Timothy Geithner, yfirmaður Seðlabanka New York-ríkis, Lawrence Summers, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna og Paul Volcker, fyrrverandi formaður stjórnar bandaríska seðlabankans, eru taldir vera á meðal þeirra sem komi til greina sem næsti fjármálaráðherra Bandaríkjanna.

Aðstoðarmenn Obama hafa ekkert sagt um það hvort Obama muni greina frá vali sínu á blaðamannafundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert