Palin hélt að Afríka væri land

Sarah Palin.
Sarah Palin. AP

Sarah Palin, varaforsetaefni John McCain forsetaefnis bandarískra repúblíkana hefur gagnrýnt harðlega starfsmenn kosningabaráttunnar sem lekið hafa neikvæðum upplýsingum um hana í fjölmiðla. Hafa starfsmennirnir m.a. staðhæft að hún hafi ekki vitað að Afríka væri heimsálfa heldur talið að um land væri að ræða. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

„Hlutirnir eru teknir úr samhengi og það er illgirnislegt. Það er kvikindislegt og óþroskað. Það er ófaglegt og viðkomandi eru aumingjar að taka hlutina úr samhengi og spinna í kring um þá sögu fyrir fjölmiðla,” sagði hún í viðtali við Gary Tuchman, fréttamann CNN.

Einn starfsmannanna sagði í samtali við fréttamann CNN að Palin hafi ekki fylgst með einni einustu umræðu um stjórnmálastefnu bandarískra yfirvalda á síðustu tíu árum.   

Einnig hefur verið staðhæft að Palin hafi ekki vitað hverjir ættu aðild að fríverslunarsamningu Norður-Ameríku (NAFTA) en undirbúningur vegna framboðs hennar hófst. Palin vísaði m.a. til þess hversu vel hún þekkti til í Kanada er spurt var um þekkingu hennar á utanríkismálum.

Palin sagði Tuchman að hún myndi að NAFTA og Afríka hefðu komið upp í undirbúningstímum hennar en að sögur starfsmannanna væru ekki sannar. Þá sagði hún gagnrýnendurna sýna hugleysi sitt með því að setja fram slíkar ásakanir án þess að koma fram undir nafni. Sagðist hún ekki ætla að svara staðhæfingunum  frekar á meðan þær væru nafnlausar.

Aðrir starfsmenn framboðsins segja hana hafa sýnt undraverða námshæfileika eftir að hún var tilnefnd varaforsetaefni McCain en hún kom þá ekki fram í fjölmiðlum í nokkurn tíma þar sem unnið var að því að setja hana inn í málin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert