Bætiefnin hindruðu ekki krabba

Sverrir Vilhelmsson

Bætiefnatöflur sem innihalda C eða E vítamín koma ekki í veg fyrir krabbamein í körlum, samkvæmt niðurstöðum stórrar rannsóknar í Bandaríkjunum. Niðurstöður sömu rannsóknar benda heldur ekki til þess að þessi bætiefni komi í veg fyrir hjartasjúkdóma.

„Andoxunarefni, sem vítamínin C og E tilheyra, hafa sem efnaflokkur möguleg áhrif til góðs,“ en þau hafa ekki verið prófuð nógu lengi hvert um sig til þess að vitað sé um áhrif þeirra, að sögn Howard Sesso við Brigham and Women's sjúkrahúsið í Boston. Það er í tengslum við Harvard háskóla.

Sasso var á meðal stjórnenda svonefndrar heilsufarsrannsóknar lækna (The Physicians Health Study). Í henni tóku þátt 14.641 karlkyns læknar sem komnir voru yfir fimmtugt. Í þeim hópi voru m.a. 1.274 komnir með krabbamein þegar rannsóknin hófst árið 1997. Þeir voru með í hópnum svo vísindamenn gætu séð hvort bætiefnin kæmu í veg fyrir annað krabbamein.

Þátttakendum var skipt í fjóra hópa sem ýmist fengu einungis E-vítamín eða C-vítamín, bæði vítamínin eða platpillur. E-vítamín skammturinn var 400 alþjóðlegar einingar annan hvern dag og C-vítamín skammturinn var 500 milligrömm á dag.

Eftir átta ára þátttöku að meðaltali voru 1.929 krabbameinstilfelli í öllum hópnum. Þar með taldir voru 1.013 með blöðruhálskirtilskrabbamein en margir höfðu vonað að E-vítamín kæmi í veg fyrir það. Hlutfall þeirra sem voru með krabbamein í blöðruhálskirtli var svipað meðal allra fjögurra rannsóknarhópanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert