Vændið verði ólöglegt

Til umræðu er að gera kaup á vændisþjónustu í Bretlandi …
Til umræðu er að gera kaup á vændisþjónustu í Bretlandi ólögleg. mbl.is/Árni Torfason

Bresk stjórnvöld íhuga nú að gera vændi ólöglegt, jafnframt því sem nöfn viðskiptavina vændiskvenna væri birt opinberlega samkvæmt svokallaðri „name and shame“ hugmyndafræði. Andstæðingar hugmyndanna telja að með þeim sé skref stigið aftur til Viktoríutímans.

En líkt og þá er nú talið að um 80.000 manns starfi í vændisiðnaðinum í landinu, mikill meirihluti konur.

Þegar eru ýmsar kvaðir lagðar á kynlífsiðnaðinn í Bretlandi og þykja reglurnar strangari en í mörgum Evrópuríkjum, svo sem í Danmörku, þar sem skref hafa verið stigin í átt frá refsingum fyrir kynlífsþjónustu.

Hugmyndir bresku stjórnarinnar eru umdeildar og vilja ýmsir gagnrýnendur hennar meina að þær séu til vitnis um yfirdrifna siðvæðingu samfélagsins.

Gordon Brown forsætisráðherra, sem er sonur prests úr bresku öldungakirkjunni, hefur þegar stutt röð skattahækkanna á tóbak og áfgengi, ásamt því að kalla eftir hertum fíkniefnalögum.

Þá beitti hinn þungbúni leiðtogi Verkamannaflokksins sér gegn því að hugmyndir um risaspilavíti í Bretlandi yrðu að veruleika, hugmyndir sem ollu nokkrum úlfaþyt á sínum tíma.

Embættismenn vilja meina að bann við kaupum á kynlífsþjónustu yrði liður í mikilvægri baráttu gegn vændi.

„Þetta myndi í grundvallaratriðum þýða að færra fólk gæti keypt vændisþjónustu, nokkuð sem ég tel að myndi vera af hinu góða,“ sagði  Jacqui Smith innanríkisráðherra í samtali við breska dagblaðið The Guardian, sem er til vinstri, um helgina.

Hefur Smith meðal annars harðlega gagnrýnt fjármálafyrirtæki í City, fjármálahverfi Lundúna, fyrir að skemmta viðskiptavinum sínum með boðum á nektardansstaði.

Til að hugmyndirnar verði að veruleika þurfa þær samþykki þingsins og er reiknað með að tekist verði á um málið í næsta mánuði.

Verði tillögurnar að veruleika munu þær gera kaup á vændisþjónustu ólögleg, ásamt því sem sérstökum viðurlögum yrði beitt gegn körlum sem kaupa sér blíðu kvenna sem hafa verið neyddar til að selja líkama sinn, að því er fram kemur í yfirlýsingu innanríkisráðuneytisins.

Búist er við frekari útlistunum á tillögunum síðar í dag.

Samkvæmt lögum í Bretlandi og á Wales er það brot á lögunum að selja vændi á götum úti. Rekstur vændishúsa er sömuleiðis ólöglegur.

Vændiskonu er hins vegar heimilt að selja blíðu sína og kaup á þjónustu hennar eru lögleg.

Þessi ákvæði ná vitaskuld einnig til kvenna sem kaupa sér viðlíka þjónustu karla.

Tillögurnar eru sem fyrr segir umdeildar og lýsti Cari Mitchell, talskona samtakanna English Collective of Prostitutes, að í þeim fælist hreintrúarstefna, og vísaði þar með til siðareglna og venja púrítana á 16. og 17. öld.

Catherine Healy, sem fer fyrir samtökunum New Zealand's Prostitutes' Collective á Nýja-Sjálandi, er einnig full efasemda.

„Ég lít svo á að það sé með ólíkindum að Bretar séu að íhuga að feta jafn afleita slóð,“ sagði Healy í samtali við AP-fréttastofuna. Við vitum útfrá niðurstöðum viðamikilla rannsókna [...] að starfsmenn kynlífsiðnaðarins [á Nýja-Sjálandi] upplifa sig öruggari og verndaðri [en áður],“ sagði Healy.

En líkt og Danir fóru Ný-Sjálendingar þá leið að stíga skref í átt frá refsingum fyrir vændiskaup og þjónustu.

Margar hliðar eru á þessu hitamáli, meðal annars sú staðreynd að glæpahringir flytja konur frá Austur-Evrópu vestur til álfunnar, þar með talið til Bretlands, þar sem þeim er haldið eins og þrælum og fjölskyldum þeirra hótað öllu illu fari dætur þeirra ekki í einu og öllu að vilja dólganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert