Hóta að steypa kanadísku stjórninni

Stephen Harper, leiðtogi íhaldsmanna í Kanada.
Stephen Harper, leiðtogi íhaldsmanna í Kanada. Reuters

Kanadíska stjórnarandstaðan hótar að steypa nýendurkjörinni stjórn Stephens Harpers forsætisráðherra vegna meints skorts á öflugum viðbrögðum hennar við kreppunni.

Rök stjórnarandstöðuflokkanna þriggja eru þau að aðgerðir stjórnvalda muni að óbreyttu ekki duga til að forða landinu frá frekari niðursveiflu, nú þegar nokkrar vikur eru liðnar frá endurkjöri Harpers.

Harper hefur brugðist við hótuninni með því að fresta atkvæðagreiðslunni sem ætlað er að fella minnihlutastjórn hans þar til 8. desember.

En íhaldsmenn, undir stjórn Harpers, juku þingstyrk sinn úr 127 sætum í 143. Alls þarf 155 sæti til að ná þingmeirihluta á kanadíska þinginu, þar sem eru 308 þingsæti.

Hefur Harper sakað Stephane Dion, leiðtoga Frjálslyndaflokksins, um að reyna að ná völdum án þess að fara lýðræðisleiðina í gegnum kosningar. 

Stjórnarandstaðan kveðst hins vegar ekki geta samþykkt endurskoðuð fjárlög stjórnarinnar, sem Jim Flaherty fjármálaráðherra kynnti á fimmtudag, enda skorti þar viðleitni til að örva hagkerfið upp úr þeim öldudal sem það er sigið í. 

Að sögn AP-fréttastofunnar hafa margir hagfræðingar tekið undir gagnrýnina.

Hyggjast frjálslyndir leggja fram vantrauststillögu á þinginu, ásamt því að leggja fram tillögu að nýrri starfhæfri stjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert