Fréttaskýring: Obama haukur í sauðargæru?

Barack Obama og Hillary Rodham Clinton á blaðamannafundinum í Chicago, …
Barack Obama og Hillary Rodham Clinton á blaðamannafundinum í Chicago, þegar forsetinn verðandi skýrði frá vali sínu í helstu embætti öryggis- og varnarmála. Reuters

Ef finna á eitt orð til að lýsa inntaki forsetaframboðs Baracks Obamas þá kemur orðið breytingar upp í hugann. Frambjóðandinn boðaði breytta stjórnarhætti þar sem ný og fersk sýn fengi að ráða för. Flokkadrættir og pólitískir bitlingar skyldu settir til hliðar. En hversu langt er hann tilbúinn að ganga? Hvað segir skipan hans í helstu stöður utanríkis- og varnarmála? Er hann þrátt fyrir allt haukur, þrátt fyrir alla gagnrýnina á Íraksstríðið? 

Segja má að Obama hafi verið samkvæmur sjálfum sér þegar hann hætti við að íhuga að skipa John Brennan í stöðu yfirmanns bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, vegna harðrar gagnrýni frjálslyndra um að þar færi maður sem væri tengdur vafasömum meðölum Bush-stjórnarinnar í hryðjuverkastríðinu, pyntingum og öðru ógeðfelldu.

Fátt kom hins vegar á óvart í vali forsetans verðandi í helstu embætti öryggis- og varnarmála.

Þriðja konan í embætti utanríkisráðherra

Höfuðandstæðingur hans í forsetaframboðinu demókratamegin, Hillary Rodham Clinton, verður næsti utanríkisráðherra og þar með þriðja konan til að gegna því embætti.

Fyrst kom Madelaine Albright á síðara kjörtímabili Williams „Bills“ Clintons, 1997 til 2001, og svo Condoleezza Rice, sem gegnt hefur embættinu frá 2005, þegar síðara kjörtímabil George W. Bush hófst eftir endurkjör.

Eins og rakið er í bókinni Obama:From Promise to Power, ævisögu um Obama, eftir blaðamanninn David Mendell hjá Chicago Tribune hefur Obama litið svo á að ræða hans gegn Íraksstríðinu á sínum tíma sé besta ræðan sem hann hafi flutt á ferli sínum.

Um líkt leyti var Hillary Clinton hins vegar fylgjandi innrásinni í Írak, staðreynd sem ítrekað var rifjuð upp í kosningabaráttunni.

Hitt þungavigtarembættið í utanríkis- og varnarmálum, embætti varnarmálaráðherra, fellur í skaut repúblikanans Roberts Gates.

Var það eftir bókinni, enda var almennt búist við að hann yrði áfram varnarmálaráðherra eftir að hafa gegnt embættinu í um tveggja ára skeið í stjórn Bush forseta.

Verður hann þar með fyrsti varnarmálaráðherrann til að þjóna forseta sem tekur við stríðsástandi á erlendri grundu frá því á dögum Víetnamsstríðsins.

Brúarsmíði Gates 

Með þetta í huga ætti valið ekki að koma á óvart, enda getur Gates í senn verið brúarsmiður á milli repúblikana og demókrata og sameinað herinn á erfiðum tímum, nú þegar hann þarf að dreifa kröftum sínum í Írak og Afganistan.

En það kann að angra frjálslynda að þessi arftaki Donalds Rumsfelds er náinn vinur Bush-fjölskyldunnar til margra ára.

Vart þarf að taka fram að Clinton og Gates koma úr ólíkum áttum í hinu pólitíska litrófi og kveðst Obama vilja með valinu gefa kost á ólíkum skoðunum ólíkra einstaklinga, þannig að hann verði ekki einangraður frá gagnrýni við ákvarðanatökur heldur fái rökræður um álitamál beint í æð frá samstarfsmönnum sínum.

Val hans á samstarfsmönnum ætti að tryggja næga rökræðu á fundum.

Öldungadeildarþingmaðurinn og repúblikaninn Lindsey Graham var ánægður með valið á Gates, með þeim orðum að hann hefði „leitt þjóðina í gegnum erfiða tíma í Írak“. Hvað Clinton áræddi áleit Graham hana hafa ögn harðari línu en Obama í utanríkismálum, sem á bandarísku embættismannamáli þýðir að hún sé líklegri til að íhuga beitingu hervalds við lausn alþjóðlegra deilna.

Skipan James L. Jones, fyrrverandi yfirmanns bandaríska heraflans í Evrópu, í embætti þjóðaröryggisráðgjafa er einnig athyglisverð.

Jones hefur þannig verið ráðgjafi Bush í málefnum Miðausturlanda, þar sem hann þykir meðal annars hafa litið gagnrýnum augum á deilu Palestínumanna og Ísraela, ásamt því að vera fylgjandi því að flytja hersveitir til Afganistans, þá væntanlega frá Írak, til að herða baráttuna gegn hryðjuverkaöflum þar.

Eins og kunnugt er færðist Bush yfir á miðjuna á síðara kjörtímabili sínu. Það er því skemmtileg staðreynd að Jones talar reiprennandi frönsku, eiginleiki sem vart taldist til dyggðar þegar steiktar kartöflur voru nefndar „frelsis-franskar“ á Bandaríkjaþingi á sínum tíma, en ekki „french fries“, í hefndarskyni fyrir andstöðu Frakka við innrásina í Írak.

Með reynslu af orkumálum 

Jones lét af þjónustu sinni fyrir herinn fyrir tveimur árum eftir 40 ára starf og hefur síðan meðal annars beitt sér í orkumálum. Mun sú þekking án efa koma Obama til góða í þeirri Obama að tryggja aukið orkusjálfstæði Bandaríkjanna á komandi árum og áratugum.

Gæti þessi bakgrunnur Jones orðið til þess að róttækustu stuðningsmenn Obamas taki hann upp á sína arma, enda vonast umhverfisverndarsinnar til að loftslagsmálin komi inn í varnarmálin með nýjum forseta.

Öndvert við Obama hefur Jones hins vegar lýst yfir að fyrirsjáanlegt brotthvarf frá Írak myndi vinna gegn hagsmunum bandarísku þjóðarinnar.

Hvað snertir valið á Susan Rice í stöðu sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum ætti það að vera enn einn vitnisburður um breytta afstöðu Obama-stjórnarinnar til Sameinuðu þjóðanna frá því sem var á löngum stundum á forsetaferli fráfarandi forseta.

Vitnisburður Colins Powells fyrir öryggisráðinu um gereyðingarvopn Íraka koma upp í hugann, sem og skipan Johns Boltons í stöðu sendiherra BNA hjá SÞ, hatramms andstæðings samtakanna sem vakti hroll í beinum margra frjálslyndra á sínum tíma. Önduðu margir því léttar þegar hann sagði af sér í aðdraganda þingkosninganna haustið 2006, þegar Bush var tekinn að færast inn á miðjuna frá því sem var á fyrra kjörtímabili hans, eins og áður er rakið.

En Powell lýsti sem kunnugt er stuðningi við Obama á lokaspretti kosninganna og felldi að eigin sögn tár, ásamt fjölskyldu sinni, þegar sá síðarnefndi sigraði McCain, enda stundin söguleg fyrir blökkumenn.

Mælist misjafnlega fyrir 

Ofangreindar skipanir hafa mælst misjafnlega fyrir hjá frjálsyndum og hefur Christopher Hayes, ritstjóri tímaritsins The Nation, látið þau orð falla að útlit sé fyrir að skortur verði á framsæknum, frjálslyndum stjórnmálamönnum í stjórninni sem komið hafi að þeirri stefnumótun í loftslagsmálum, við hugmyndir um gerð regluverksins utan um fjármálamarkaðina og að þeim áherslum í Írak sem nú sé útlit fyrir að muni verða ofan á.

Útfrá köldu mati er allt útlit fyrir að Obama vilji ekki fá á sig stimpil fyrir að vera of vinstrisinnaður, enda yrði of kröpp beygja til vinstri í mörgum málum líklega til að fæla frá mikilvæga kjósendahópa.  

Hvað varðar skipan Janet Napolitano, ríkisstjóra Arizona í embætti heimavarnarmálaráðherra, þá er litið svo á að reynsla hennar af innflytjendamálum kunni að koma stjórninni vel, í því ljósi að kjósendur af spænskumælandi uppruna, kjósendahópi sem innflytjendamálin hafa brunnið á, voru hlynntari demókrötum en repúblikönum í kosningunum.

Málefnið er hins vegar vandmeðfarið og ef illa tekst til gæti það haft áhrif í næstu forsetakosningum þegar rætt er um að Sarah Palin muni bjóða sig fram gegn Obama.

Maður raunsær og varfærinn 

Í þessu samhengi má ekki gleyma því hvernig stjórnmálamaður Obama  hefur verið í gegnum tíðina. 

Eins og Obama hefur sjálfur vikið að þá hafa kjósendur af ólíkum bakgrunni og með ólík sjónarmið speglað væntingar sínar og vonir í ræðusnillingnum sem hefur átt það til að halda fyrirlestra, ekki kosningaræður. 

Þessir sömu kjósendur gleyma því hins vegar að Obama hefur oft og iðulega látið raunsæi fremur en brjóstvit eða tilfinningu ráða för.

Skemmtilegt dæmi er að þegar hann var í framboði á sínum tíma í Chicago fór hann að ráðum ráðgjafa síns og skipti um klæðnað áður en hann fór á golfvöllinn. Þetta var í sveitum Illinois og taldi ráðgjafinn ótækt að frambjóðandinn klæddi sig upp á stórborgarvísu á flötinni.

Annað dæmi er að Obama féllst á að láta Dijon-sinnep vera en þess í stað borða ódýrara sinnep á veitingastöðunum þegar hann var við atkvæðavæðar, í því skyni að virka ekki snobbaður, eins og Mendell rekur skemmtilega í bók sinni.

Svo er það hitt að veruleikinn hittir stjórnmálamenn oftar en ekki fyrir.

Obama var þannig mótfallinn fjáraustrinu í almenningsgarðinn þar sem hann hélt sigurræðuna frægu að kvöldi 4. nóvember 2008.

Á sínum tíma vildi Mendell bera andstöðuna við fjáraustrið undir Obama sem svaraði þá blákalt: „Þú veist að ef ég svaraði þér hreinskilningslega þá yrði það ígildi pólitísks sjálfsmorðs.“

Það ætti því ekki að koma á óvart að Obama skuli fylgja raunsæi við skipanir í helstu embætti öryggis- og varnarmála.

(Vegna athugasemda við fyrirsögn vill blaðamaður árétta að hér er á ferð vísvitandi orðaleikur. Í Bandaríkjunum er ósjaldan vísað til þeirra sem vilja beita hervaldi við lausn deilna á alþjóðavettvangi sem "hauka". Gaman er að fá viðbrögð frá lesendum og upprifjun á orðum Churchills um Attlee.)

Barack Obama og Hillary Clinton, verðandi utanríkisráðherra.
Barack Obama og Hillary Clinton, verðandi utanríkisráðherra. Reuters
David Mendell, höfundur Obama: From Promise to Power.
David Mendell, höfundur Obama: From Promise to Power.
Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, mun gegna embættinu áfram.
Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, mun gegna embættinu áfram. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert