Tóku tilraunum nasista með velþóknun

Arbeit macht frei, hin alræmda setning við eina af útrýmingarbúðum …
Arbeit macht frei, hin alræmda setning við eina af útrýmingarbúðum nasista. Tilraunir vísindamanna á gyðingum nutu velþóknunar þýskra kollega þeirra.

Tilraunir vísindamanna í Þýskalandi nasismans á gyðingum nutu víðtæks samþykkis kollega sinna, að því er haldið er fram í nýrri bók Richard J. Evans, prófessors við Cambridge-háskóla. 

Í bókinni, sem heitir The Third Reich at War, fjallar Evans um hvernig vísindamaðurinn Josef Mengele hafi haldið fyrirlestra um rannsóknir sínar á gyðingum, þar með talið á tvíburum sem hann notaði til að rannsaka hvort og þá hvernig þeir myndu bregðast með ólíkum hætti við því þegar efnum var dælt í líkama þeirra.

Hlaut Mengela styrki frá stofnuninni Kaiser Wilhelm Institute í Berlín til að fjármagna rannsóknirnar, sem voru liður í þeirri viðleitni hans að öðlast rétt til prófessorsstöðu.

Gerði hann hinum þekkta vísindamanni Otmar von Verschuer reglulega grein fyrir framgangi rannsóknanna.

Af öðrum ógeðfelldum rannsóknum Mengela má nefna tilraunir með börn af sígaunaættum við rannsóknir á sjúkdómum sem taldir voru tengjast næringarskorti.

Varð Mengela einkum alræmdur fyrir að leysa deilur um sjúkdómsgreiningu með því að lífláta sjúklinga og framkvæma síðan krufningu.

Sýktu fanganna

Adolf Hitler, leiðtogi nasista og Þriðja ríkisins, var einkar áhugasamur um tilraunirnar, enda mikill áhugamaður um „mannkynbætur“. 

Af fjölbreyttum rannsóknum má nefna að vísindamennirnir Karl Gebhardt og Fritz Fischer gerðu tilraunir með konur í útrýmingarbúðunum í Ravensbrück, þar sem skæðum sýkjandi örverum var sprautað í þær til að kanna viðbrögðin.

Því næst var kannað hvort tilraunalyf virkuðu í líkama þeirra.

Gerðu þeir grein fyrir niðurstöðunum á vísindasamkomum.

Læknar á vegum SS-sveitanna voru enn grófari og hikuðu ekki við að brjóta bein fanganna með hömrum við rannsóknir á því hvernig bæri að gera að sárum hermanna.

Vöðvar voru ristir upp og reynt að sýkja ýfð sárin við lyfjatilraunir.

Kældir til dauða

Meðal lækna úr röðum SS var Sigmund Rascher sem gerði tilraunir á áhrifum súrefnisskorts á fanganna, í rannsóknum sem áttu að koma flughernum að gagni.

Talið er að á milli 70 og 80 fangar hafi látist við tilraunirnar.

Þá flutti Rascher ræðu frammi fyrir 95 vísindamönnum í Nuremberg þar sem hann skýrði fullur áhuga frá því hversu lengi fangar, sem klæddir voru í herbúninga flughersins, gátu lifað í köldu vatni, á floti með björgunarhring.

Reyndist meðaltíminn vera 70 mínútur, niðurstöður sem áttu að gagnast flugmönnum herflugvéla sem voru skotnar niður yfir Norðursjó.

Að sögn Evans hreyfði enginn viðstaddra við siðferðislegum spurningum á læknaráðstefnunni.

Segir Evans að hluti skýringarinnar fyrir því hvers vegna þýskir læknar sættust á rannsóknirnar meðal annars liggja í því að árið 1939 hafi tveir af hverjum þremur læknum haft tengsl við nasista og læknar almennt notið góðs af áherslu Þriðja ríkisins á lækningar.

En þeim var ætlað að efla vöxt og viðgang aría, hins „hreina kynstofns“.

Til að viðhalda hreinleika kynstofnsins tóku læknar virkan þátt í að gelda 360.000 manns sem ekki var talið æskilegt að eignuðust afkvæmi.

Áróðursplakat af Adolf Hitler, leiðtoga nasista og Þriðja ríkisins.
Áróðursplakat af Adolf Hitler, leiðtoga nasista og Þriðja ríkisins.
Hinn aldæmdi Sigmund Rascher.
Hinn aldæmdi Sigmund Rascher.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert