O. J. Simpson í 15 ára fangelsi

Bandaríski kvikmyndaleikarinn og fyrrum ruðningsleikarinn O.J. Simpson var í kvöld dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir mannrán og vopnað rán á hóteli í Las Vegas í september á síðasta ári.

Jackie Glass, dómari, sagði að Simpson væri bæði hrokafullur og fáfróður og að sönnunargögnin væru sannfærandi.

Simpson ávarpaði réttinn áður en dómurinn var kveðinn upp og sagði að hann iðraðist gerða sinna. „Ég vissi ekki að ég væri að gera neitt rangt. Ég taldi mig vera að eiga samskipti við vini og endurheimta eigur mínar. Mér þykir þetta því leitt," sagði hann.

Simpson og Clarence Stewart, sem einnig var dæmdur í 15 ára fangelsi, voru fundnir sekir um að hafa ruðst vopnaðir inn í hótelherbergi í Las Vegas í fyrra og rænt minjagripum, sem þar voru til sölu. Simpson sagði að munirnir tilheyrðu sér.

Simpson var árið 1995 sýknaður af ákæru fyrir að myrða  Nicole Brown Simpson, fyrrum eiginkonu sína, og vin hennar,  Ronald Goldman. Réttarhöldin vöktu athygli um allan heim. Simpson var síðar dæmdur til að greiða aðstandendum Goldman jafnvirði 4,3 milljarða króna í miskabætur. 

O.J. Simpson hlýðir á dóminn í Las Vegas í kvöld.
O.J. Simpson hlýðir á dóminn í Las Vegas í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert