Grigoropoulos borinn til grafar í Grikklandi

Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda við þinghúsið í Aþenu, höfuðborg Grikklands í dag á sama tíma og fimmtán ára  unglingur, sem skotinn var til bana af lögreglu var borinn til grafar í nágrenni borgarinnar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Hundruð manna voru viðstödd útför hans í Paleo Faliro úthverfinu. Þá tóku þúsundir nemenda og kennara þátt í friðsamlegri göngu um Aþenu en skólum var lokað þar í dag vegna útfararinnar. Átök blossuðu hins vegar upp er ungmenni slógust í hóp nemendanna og kennaranna og köstuðu steinum og flöskum í lögreglumenn við þinghúsið.

Beitti lögregla táragasi til að dreifa mannfjöldanum. Mikil mótmæli brutust út í landinu eftir að pilturinn Alexandros Grigoropoulos var skotinn til bana fyrir fjórum dögum og hafa þau staðið nær linnulaust síðan. Hafa mótmælendur m.a. kveikt í hundruð bygginga.

Tveir lögreglumenn hafa verið ákærðir vegna láts piltsins en ekki hefur enn verið skorið nákvæmlega úr um það úr hvaða átt kúlan kom sem varð honum að bana.

Alexandros Grigoropoulos
Alexandros Grigoropoulos AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert