Óeirðir í Aþenu

Lögreglumenn og mótmælendur horfast í augu í miðborg Aþenu síðdegis.
Lögreglumenn og mótmælendur horfast í augu í miðborg Aþenu síðdegis. Reuters

Tugir ungmenna, bæði fótgangandi og á mótorhjólum, hafa ráðist á lögreglustöð í  Aþenu, höfuðborgar Grikklands, í kvöld. Einnig var kveikt í stjórnarbyggingu í miðborginni og tveir bankar hafa verið skemmdir. Lögregla hefur beitt táragasi gegn fólkinu.

Fyrr í kvöld var víða kveikt á kertum í borginni til að minnast þess að vika er liðin frá því lögreglumaður skaut 15 ára gamlan dreng til bana. Í kjölfarið urðu óeirðir sem hafa verið daglegt brauð síðan, bæði í Aþenu og öðrum helstu borgum landsins.

Ungmennin köstuðu að minnsta kosti einni bensínsprengju að lögreglustöð í  Exarchiahverfi í borginni í kvöld þar sem unglingurinn var skotinn til bana. Þau brutu síðan gangstéttarhellur og hlóðu götuvirki með grjóti og brennandi ruslatunnum.

Róstusamt hefur einnig verið í Þessalóníku, næststærstu borg Grikklands, í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert