Minnst 150 handteknir í Rússlandi

Stjórnarandstæðingar handteknir í Moskvu.
Stjórnarandstæðingar handteknir í Moskvu. Reuters

Rússneska lögreglan handtók í dag að minnsta kosti 150 manns sem tóku þátt í götumótmælum sem Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, skipulagði í Moskvu og Sankti Pétursborg.

Talsmaður lögreglunnar sagði að 90 hefðu verið handteknir í Moskvu og 60 í Sankti Pétursborg. Fréttamaður AFP kvaðst hafa séð hundruð óeirðalögreglumanna á Tríumfalnaja-torginu í miðborg Moskvu. Vörubílum og járnhindrunum var komið fyrir í kringum torgið til að stöðva göngu stjórnarandstæðinga.

Talsmaður Kasparovs sagði hann hafa reynt að komast á torgið til að taka þátt í mótmælunum en ekki komist þangað vegna lögreglunnar. „Hann er núna heima hjá sér en lögreglan hefur lokað götunni fyrir utan,“ sagði talsmaðurinn.

Á meðal skipuleggjenda mótmælanna var einnig Alexej Fomín, fyrrverandi hershöfðingi, sem var handtekinn í Moskvu ásamt fleiri gömlum hermönnum.

Kasparov og fleiri stjórnarandstæðingar stofnuðu nýjan flokk, Samstöðu, í gær og hétu því að fella stjórn Vladímírs Pútíns forsætisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert