Sænskur fjöldamorðingi dregur játningar til baka

Sænskur fjöldamorðingi, Thomas Quick, sem hefur verið dæmdur fyrir átta morð og hefur viðurkennt á þriðja tug morða, hefur ákveðið að draga allar játningarnar til baka og fer fram á að það verði réttað yfir honum á ný. Lögfræðingur Quick, Thomas Olsson, staðfesti þetta í viðtali við sænska ríkisútvarpið í morgun.

Segir Olsson að fyrsta málið sem þeir fari fram á að verði tekið upp að nýju sé morðið á Ísraelanum Yenon Levi. En Quick var dæmdur fyrir morðið á Levi, sem var 24. ára ferðamaður í Svíþjóð, árið 1997. Játaði Quik að hafa myrt hann árið 1988.

Quick var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir átta morð sem hann játaði á sig á árunum 1976-1988. Afplánar hann dóminn á réttargæsludeild.

Hefur hann verið iðinn við að játa á sig fjölda morða í afplánuninni en morðin framdi hann í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Lýsti hann því hvernig hann myrti fórnarlömb sín og í einu tilviki hvernig hann át eitt þeirra.

Í heimildamynd sem sýnd var í sænska sjónvarpinu í gærkvöldi dró hann hins vegar játningarnar til baka og sagðist hafa játað þar sem hann skorti athygli auk þess að vera undir áhrifum lyfja.

„Ég framdi ekkert þessara morða sem ég hef verið dæmdur fyrir og ég framdi ekkert þeirra morða sem ég hef játað á mig heldur," sagði Quick í þættinum.

Nánar um Thomas Quick og heimildamyndina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert