Hamas ekki að baki flugskeytaárásum

Palestísnka fjölskylda horfir yfir aðskilnaðarmúr Ísraela við bæinn Bilin í …
Palestísnka fjölskylda horfir yfir aðskilnaðarmúr Ísraela við bæinn Bilin í nágrenni Ramallah á Vesturbakkanum. AP

Herskáir Palestínumenn skutu níu Qassam flugskeytum yfir landamæri Gasasvæðisins til Ísraels í nótt. Ellefu flugskeytum var skotið yfir landamærin í gær. Forsvarsmenn Hamas samtakanna hafa lýst því yfir að sex mánaða vopnahlé þeirra við Ísraela renni út á föstudag en ekki er þó talið að liðsmenn þeirra hafi staðið á bak við árásir undanfarinna daga. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.Palestínsku Jihad samtökin hafa lýst ábyrgð á nokkrum flugskeytaárásanna í gær á hendur sér og segja þær hafa verið hefndaraðgerðir vegna dráps Ísraelshers á háttsettum liðsmanni samtakanna á Vesturbakkanum í gær.

Öryggissveitir Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu hafa handtekið liðsmenn nokkurra herskárra samtaka Palestínumanna á  undanförnum dögum vegna flugskeytaárásanna en forsvarsmenn Hamas segja að þrátt fyrir að þeir vilji ekki framlengja vopnahléið muni samtökin ekki gera árásir að fyrra bragði á Ísraela

Forsvarsmenn Hamas segja ástæðu þess að þeir vilji ekki framlengja vopnahléið vera þá að Ísraelar hafi ekki staðið við sinn hluta þess. Ísraelar og Egyptar, sem höfðu milligöngu við gerð samkomulagsins, segja ekki rétt að vopnahléið hafi verið tímasett til sex mánaða. Þá lýstu Ísraelar yfir áhuga á framlengingu þess á sunnudag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert