Fær bætur vegna bensíneyðslu

Hellisheiði
Hellisheiði Ómar Óskarsson

Yfirlandsréttur í Stuttgart hefur dæmt bílaframleiðandann Daimler til þess að greiða þýskum eiganda Mercedes-bifreiðar samtals 2.500 evrur í skaðabætur. Ástæða þessa er sú að bifreiðin eyddi 15% meira en útreikningar á eldsneytiseyðslu Evrópusambandsins segja til um. Þetta kemur fram í danska vefritinu FPN.

Mörgum bifreiðaeigendum hefur reynst ómögulegt að halda eldsneytiseyðslu bíla sinna undir þeim tölum sem bílasölur lofa þeim. Ástæðan er m.a. sú að útreikningar Evrópusambandsins eru fengnir með því að mæla eyðslu bíla í sýndarakstri sem er langt frá þeim raunveruleika sem flestir ökumenn búa við þar sem bíllinn er notaður í stuttum ferðum innanbæjar og miðstöðin er notuð til þess að hita upp bílinn og losna við móðu á rúðum. 

Eftir niðurstöðu yfirlandsréttar hefur Daimler fallist á að semja um málið og greiða fyrrgreindum eiganda bætur. Þar með sleppur fyrirtækið við að málið fari fyrir hæstarétt, en færi málið þangað og félli úrskurður sem ekki væri fyrirtækinu í hag myndi það hafa fordæmisgildi í málum annarra bifreiðaeigenda sem telja sig svikna þar sem eyðsla bíla þeirra standist ekki væntingar og fyrirheit. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert