Kaup á vændi orðin ólögleg

Norsk yfirvöld hyggjast uppræta götuvændi með nýjum lögum
Norsk yfirvöld hyggjast uppræta götuvændi með nýjum lögum AP

Ný lög tóku gildi í Noregi á miðnætti í upphafi nýs árs, sem boða þung viðurlög við kaupum á vændi, en hinsvegar ekki við því að bjóða vændi. Lögunum svipar til þeirrar nálgunar sem verið hefur við lýði í Svíþjóð undanfarin ár, en eru mun strangari.

Verði Norðmaður uppvís að því að borga fyrir kynlíf á hann, frá og með deginum í dag, yfir höfði sér háar fjársektir og allt að hálfs árs fangelsi samkvæmt nýju lögunum. Hafi maðurinn átt mök við barn eða ólögráða ungmenni gegn greiðslu heimila lögin allt að 3 ára fangelsisdóm.

Með þessu segjast norsk yfirvöld vilja útrýma ferðamennsku sem gerir út á kynlíf og götuvændi, með því að beina sjónum að kúnnanum frekar en að vændiskonunni. Samkvæmt lögunum hefur lögregla heimild til að hlera menn sem grunaðir eru um vændiskaup og leggja upptökur fram sem sönnunargögn fyrir rétti.

Vændiskonur sem nást verður boðið ókeypis fræðsla og læknismeðferð fyrir þær sem eiga við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða. Yfirvöld í Noregi hafa þegar farið í mikla herferð til að auglýsa lögin, áður en þau gengu í gildi, og segja að nú þegar hafi orðið áberandi samdráttur götuvændis í Osló.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert