Fékk ekki þingsætið

Bandarískir embættismenn neituðu að leyfa manni, sem tilnefndur var sem eftirmaður Baracks Obama í öldungadeild Bandaríkjaþings, að sverja embættiseið þegar þingið kom saman í dag.

„Kjörbréf mitt var ekki í lagi, ég verð ekki samþykktur, ég mun ekki taka sætið," sagði Roland Burris, sem  Rod Blagojevich, ríkisstjóri Illinois, útnefndi sem eftirmann Obama. 

Blagojevich er sakaður um víðtæka spillingu í embætti og er m.a. grunaður um að hafa reynt að selja þingsæti Obama til hæstbjóðanda. Þótt Burris sé virtur embættismaður, sem hefur m.a. gegnt embætti ríkissaksóknara Illinois, viðurkenna demókratar á Bandaríkjaþingi ekki embættisverk   Blagojevich og segja að ríkisþing Illinois eigi að velja eftirmann Obama.

Burris, sem er 71 árs, sagði við blaðamenn, sem fylgdust með sýningunni á Bandaríkjaþingi í dag, að hann vildi ekki standa í átökum um þingsætið. Hann sagðist hins vegar vera að íhuga að höfða mál til að þvinga demókrata í öldungadeildinni til að fallast á hann sem þingmann.

Burris yrði, tæki hann sæti í öldungadeildinni, eini blökkumaðurinn þar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert