Ísraelar vara við hertum árásum

Ísraelsher hefur skilið eftir skilaboð á símsvörum Palestínumanna og dreift miðum yfir Gasasvæðið þar sem íbúar þess eru varaðir við því að hertar hernaðaraðgerðir Ísraels séu yfirvofandi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Á miðunum og í skilaboðunum, sem eru á arabísku eru óbreyttir borgarar hvattir til að halda sig frá stöðum sem tengjast starfsemi Hamas-samtakanna. Þá segir að hernaðaraðgerðirnar beinist ekki gegn íbúum Gasasvæðisins heldur einungis Hamas-samtökunum og hryðjuverkamönnum. 

Í sumum skilaboðunum segir einnig að þriðja stig hernaðaraðgerðanna sé yfirvofandi. Ísraelar hafa nú gert loftárásir á Gasasvæðið í tvær vikum og ein vika er frá því þeir hófu einnig landhernað þar.

Ísraelsher segist hafa fellt fimmtán liðsmenn Hamas-samtakanna í átökum á siðastliðnum sólarhring en 786 Palestínumenn hafa nú látið lífið í árásum Ísraela og átökum við þá. Þrettán Ísraelar hafa látið lífið í árásum og átökum síðustu tveggja vikna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert