Livni: Hernaður þjónar hagsmunum beggja

Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, heimsækir loftvarnabyrgi í ísraelska bænum Sderot.
Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, heimsækir loftvarnabyrgi í ísraelska bænum Sderot. AP

Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, staðhæfði í morgun að hernaðaraðgerðir Ísraela á Gasasvæðinu þjóni ekki síður hagsmunum Palestínumanna en Ísraels. Sagði hún aðgerðirnar styrkja alla hófsama aðila á svæðinu á kostnað öfgamanna og þannig auka líkurnar á að samkomulag um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna náist. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Livni sagði er hún ávarpaði sendinefnd frá samtökum gyðinga í Bandaríkjunum að það væri stefna ísraelska yfirvalda að ræða við hófsemismenn en beita afli gegn öfgamönnum. 

Þá staðhæfði hún að leiðtogar Hamas-samtakanna væru að missa móðinn þótt slíkt væri ekki að heyra á opinberum yfirlýsingum þeirra.

 Gabi Ashkenazi, yfirmaður Ísraelshers, sagði í morgun að hernum hefði tekist að veikja Hamas samtökin, bæði hernaðararm þeirra og pólitískan arm. Þá sagði hann hvoru tveggja stuðla að auknu öryggi íbúa suðurhluta Ísraels. 

Þrjátíu herskáir Palestínumenn féllu í átökum við ísraelska hermenn í nótt og í morgun en átján dagar eru nú frá því hernaðaraðgerðir Ísraelshers á Gasasvæðinu hófust.

Palestínumenn segja 920 Palestínumenn hafa látið lífið í átökum og árásum Ísraela en þrettán Ísraelar hafa látið lífið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert