Krefst brottvikningar Jústsjenkós

Stjórnarandstaðan í Úkraínu hefur krafist þess að þing landsins höfði mál á hendur Viktor Jústsjenkó forseta til embættismissis vegna framgöngu hans í gasdeilunni við Rússa. Jústsjenkó sakar Rússa um að nota gasdeiluna til að ýta undir uppreisn í Úkraínu.

Viktor Janúkovítsj, leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins, sem beið ósigur fyrir Jústsjenkó í forsetakosningum árið 2004, krafðist málshöfðunarinnar í ræðu á þingi landsins. Hann krafðist þess einnig að stjórn Júlíu Tymoshenko forsætisráðherra yrði vikið frá vegna stefnu hennar sem hefði leitt til gasskorts og efnahagsþrenginga í landinu.

Jústsjenkó forseti sakaði hins vegar Rússa um að nota gasdeiluna til að grafa undan sjálfstæði Úkraínu og ýta undir uppreisn í austanverðu landinu þar sem fyrirtæki eru háð rússnesku jarðgasi.

Gasdeilan við Rússa hefur orðið til þess að fylgi Jústsjenkós forseta hefur snarminnkað. Hann nýtur aðeins stuðnings 2,4% landsmanna samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í gær, en hún var gerð á vegum stofnunar sem sænska ríkisstjórnin styrkir. Um 22% aðspurðra sögðust styðja Janúkovítsj og tæp 14% Tymoshenko.

Gasflutningar til Evrópulanda um leiðslur í Úkraínu stöðvuðust að nýju í dag, skömmu eftir að samkomulag náðist um alþjóðlegt eftirlit með gasstreyminu. Rússneski gasrisinn Gazprom sakaði Úkraínumenn um að hindra gasflutningana og sagði skýrslu eftirlitsmanna staðfesta þá ásökun.

Úkraínumenn sögðu hins vegar að Rússar höguðu gasflutningunum þannig að ógjörningur væri fyrir Úkraínumenn að dæla gasinu til ESB-landa án þess að skrúfa fyrst fyrir gasleiðslur til fjögurra úkraínskra héraða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert