Obama fær nýjan forsetabíl

Ófreskjan, nýi kádiljákurinn sem Obama fær.
Ófreskjan, nýi kádiljákurinn sem Obama fær. Reuters

Birtar hafa verið myndir af væntanlegum forsetabíl Baracks Obama, sem tekur við embætti Bandaríkjaforseta á mánudag. Um er að ræða  brynvarinn svartan kádilják sem minnir helst á ökutæki í kvikmynd um James Bond.

Hefð er fyrir því að nýr Bandaríkjaforseti fái nýjan embættisbíl af gerðinni Cadillac og einnig er hefð fyrir því að bíllinn sjáist fyrst opinberlega eftir embættistökuna. Bandaríska leyniþjónustan segir, að nýi bíllinn muni veita þeim, sem hann notar, mestu mögulegu vernd sem unnt er. Litlar upplýsingar veittar um búnað bílsins en í tilkynningu frá Nicholas Trotta, sem ber ábyrgð á lífvarðasveitum forsetans, segir að öryggisbúnaður og samskiptakerfi geri það að verkum, að um sé að ræða þróaðasta þjóðhöfðingjabíl í heimi. 

Talið er að bíllinn sé brynvarinn, með skothelt gler og súrefniskerfi þannig að hægt sé að innsigla farþegarýmið ef gerð verður efnavopnaárás. Sumir segja að bíllinn sé svo sterkur að hann ætti að þola eldflaugaárás. 

Engar upplýsingar hafa verið gefnar um innréttingar bílsins en án efa er „Ófreskjan" eins og bíllinn hefur verið nefndur, er búinn öllum nýjasta og fullkomnasta búnaði.  

Á vef breska ríkisútvarpsins BBC er haft eftir  David Caldwell, talsmanni General Motors sem framleiðir Cadillac, að bíllinn sé útbúinn samkvæmt fyrirmælum Bandaríkjastjórnar. Meðal fyrirmælanna sé að ekki sé rætt um fyrirmælin.

Ekki er gert ráð fyrir að embættisbíll Georges W. Bush, forseta, verði seldur frekar en aðrir embættisbílar forsetaembættisins, heldur verði hann notaður til að aka gestum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert