Vilja vopnahlé til a.m.k. eins árs

Ísraelskur skriðdreki við landamæri Ísraels og Gasasvæðisins.
Ísraelskur skriðdreki við landamæri Ísraels og Gasasvæðisins. AP

Omar Suleiman, yfirmaður leyniþjónustu Egyptalands og aðalsamningamaður Egypta í deilum Ísraela og Palestínumenna, hefur sett þau skilyrði fyrir hugsanlegu vopnahléi á Gasasvæðinu að palestínsku Hamas samtökin skuldbindi sig til eins árs vopnahlés. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz. 

Miguel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, greindi frá því í dag að Ahmed Aboul Gheit, utanríkisráðherra Egyptalands, hafi sagt sér á mánudag að það væri einungis dagaspursmál hvenær samkomulag um vopnahlé myndi nást. Sagði hann deiluaðila sammála um að binda enda á átökin áður en Barack Obama tekur við embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar.

Þá sagði Moratinos að Suleiman og Gheit hefðu sagt að Bashar Assad, forseti Sýrlands, hafi boðið fram aðstoð sína við að sannfæra fulltrúa Hamas-samtakanna um að fallast á hugmyndir Egypta að vopnahléssamkomulagi. 

Greint er frá því í arabíska blaðinu Al Hayat sem gefið er út í London, í dag að fulltrúar Hamas séu nú reiðubúnir til að fallast á að Tyrkir hafi eftirlit með landamærum Gasasvæðisis og Egyptalands en forsvarsmenn Hamas hafa fram til þess alfarið hafnað því að erlendir eftirlitsmenn verði staðsettir Gasa megin landamæranna.

Ísraelar hafa sett það sem skilyrði fyrir vopnahléi að tryggt verði að vopnum verði ekki smyglað yfir landamærin en þeir saka Hamas um að hafa nýtt sér sex mánaða vopnahlé til að koma sér upp vopnabirgðum.

Palestínumenn segja hátt í þúsund manns hafa látið lífið í hernaðaraðgerðum Ísraela á Gasasvæðinu frá 27. desember. Rúmri viku áður en Ísraelar hófu aðgerðirnar lýstu Hamas samtökin sex mánaða vopnahlé sitt og Ísraela ógilt. Í kjölfar þess fór flugskeytum að rigna yfir landamæri Ísraels frá Gasasvæðinu.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert