Olmert segir að skotið hafi verið frá byggingu SÞ

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, staðhæfði í samtali við Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í dag að skotið hafi verið á ísraelska hermenn frá höfuðstöðvum stofnunarinnar í Gasaborg áður en Ísraelsher gerði árás á bygginguna og lagði hana í rúst. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Þrír eru sagðir hafa látist í árásinni auk þess sem mörg tonn af mat og hjálpargögnum eyðilögðust.

Fyrr í dag bað Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels, Ban Ki-moon afsökunar á árásinni og sagði hana mistök sem tekin væru mjög alvarlega. Ban hafði þá fordæmt árásina og krafist rannsóknar á henni.

Þúsundir Palestínumanna hafa flúið heimili sín í borginni undanfarinn sólarhring. Þá segja Palestínumenn rúmlega þúsund manns hafa látið lífið í þriggja vikna hernaðaraðgerðum Ísraela á Gasasvæðinu.

Tugir létu lífið er Ísraelsher gerði í síðustu viku loftárás á stúlknaskóla Sameinuðu þjóðanna í Jabalya, þar sem almennum borgurum hafði verið ráðlagt að leita skjóls. Eftir atvikið staðhæfði Ísraelsher að skotið hafi verið á ísraelska hermenn frá skólanum og að lík herskárra Palestínumanna hefðu fundist í honum að árásinni lokinni.

Nokkrum dögum síðar greindu fulltrúar Sameinuðu þjóðanna frá því að Ísraelar hefði viðurkennt að ekki hafi verið rétt að skotið hafi verið frá skólanum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert