Talið að allir hafi komist lífs af

Að sögn bandaríska loftferðaeftirlitsins er talið að allir 155 sem voru um borð í Airbus flugvél US Airways, sem hrapaði í Hudsonfljót í New York í kvöld, hafi komist lífs af. 149 farþegar og sem og 6 manna áhöfn voru í vélinni.

Michael Bloomberg, borgarstjóri New York, sagði við fréttamenn að ekki væri annað vitað en að allir hefðu komist út úr vélinni. Hann sagðist hafa talað við flugmanninn, sem hefði sagt sér að hann hefði farið síðastur út úr vélinni og gengið úr skugga um að enginn væri eftir. Sagði Boomberg, að flugmaðurinn hefði unnið mikið afrek með því að bjarga öllum um borð.

Vélin hafði nýhafið sig til flugs frá LaGuardia flugvelli í New York þegar hún lenti í ánni. Ferðinni var heitið til Charlotte, í Norður-Karólínu. Ekki er ljóst hvað gerðist en leitt hefur verið að því líkum, að báðir hreyflar flugvélarinnar hafi skemmst þegar vélin flaug á fuglahóp í flugtakinu.

Einn farþeganna sagði í samtali við CNN-fréttastöðina að skömmu eftir flugtak hafi heyrst mikill hvellur. Vélin hafi í kjölfarið byrjað að hristast og skjálfa og þá hafi fólk farið að finna reykjarlykt.

Alls voru 154 í vélinni þegar hún hafnaði í Hudsonfljóti.
Alls voru 154 í vélinni þegar hún hafnaði í Hudsonfljóti. AP
Vélin er af gerðinni Airbus A320.
Vélin er af gerðinni Airbus A320. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert