Fátækt og hungur á Grænlandi

Grænlensk börn.
Grænlensk börn. mbl.is/ Ómar

Yfirmaður félagsmálayfirvalda á Grænlandi hefur greint frá því að fátækt sé nú svo mikil á meðal almennings í landinu að gera megi ráð fyrir að sjötta hvert barn gangi um svangt. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

„Af hverju gerir enginn neitt. Það er eitthvað mikið að,” segir yfirmaðurinn Magga Fencker í viðtali við blaðið Sermitsiaq og vísar þar til heimstjórnarinnar og danskra yfirvalda.

Áður hafa verið birtar skýrslur sem staðfesta að fátækt og hungur sé vaxandi vandamál í landinu.„Við komum inn á heimilin og sjáum þau og það er enginn vafi á því að fólk er svangt,” segir  Ujarak Kreutzmann, sem tók þátt í að dreifa matarkörfum Lionsklúbbsins í höfuðborginni Nuuk fyrir jólin. „Við hefðum þurft mun fleiri körfur.”

Aukin fátækt í landinu er m.a. rakin til loftslagsbreytinga sem hafa gert fæðuöflun þar erfiðari. John Biilman, formaður grænlensku sjómanna og veiðimannasamtakanna KNAPK segir marga félagsmenn í mjög erfiðri stöðu.

„Árið 2008 skrifuðum við til heimastjórnarinnar og báðum um aðstoð, en hana gátum við ekki fengið,” segir hann og bætir því við að þeim verst settu hafi verið ráðlagt að leita til félagsmálayfirvalda.

„En leiti maður til félagsmálayfirvalda þá er manni sagt að afsala sér veiðirétti sínum og skrá sig atvinnulausa. Það geta menn ekki gert því þá hafa þeir enga möguleika á að sjá sér og sínum farborða. Þetta er val á milli tveggja afleittra kosta.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert