Ólík viðbrögð í nauðlendingu

Viðbrögð farþeganna í þotunni sem nauðlenti á Hudsonánni í New York á fimmtudag voru af ýmsum toga. Sumir æptu, aðrir grúfðu höfuð milli hnjánna, margir báðu. En aðeins einn gerði það sem fólk á að gera: hann las leiðbeiningarnar á öryggisspjaldinu um neyðardyrnar.

 Sumir sýndu riddaralega framkomu en aðrir beittu óspart olnbogunum til að ryðjast út um dyrnar þegar þær voru opnaðar, að sögn The New York Times. Kona í loðfeldi bað mann um að fara aftur inn í vélina og ná þar í peningaveskið sitt sem hafði orðið eftir en þá var þotan þegar farin að sökkva hægt og rólega í ána. Móðir með 9 mánaða barn sitt varð að klifra með barnið yfir sætisbök vegna fáts sem koma á marga og óskipulegs troðningsins. Karlmaður kom henni loks til hjálpar.

Nauðlending flugstjórans Chesleys Sullenbergers þykir hafa tekist afburða vel og er hann hylltur sem hetja fyrir snarræðið og hugrekkið. Hann er 57 ára gamll og þrautþjálfaður enda var hann flugmaður í hernum í 29 ár. Mestur vandinn er að tryggja að vélarvana þotan lendi með réttum halla á vatninu og það mun hafa tekist frábærlega vel.

Einnig er hann dáður fyrir að fara tvær ferðir um alla vélina þegar búið var að bjarga fólkinu út, hann vildi tryggja að enginn væri eftir áður en hann fór loks sjálfur í björgunarskip. Kunnáttumenn draga ekki úr hrósinu en sumir benda á að Sullenberger hafi líka haft heppnina með sér, hana megi ekki skorta við aðstæður af þessu tagi.

 Get er ráð fyrir að flak Airbus-A320 þotunnar verði  híft upp úr ánni og það flutt á flugvöll þar sem rannsóknarmenn munu skoða það vandlega. Vilja menn komast að raun um það hvort rétt sé að hópur fugla á LaGuardia-velli hafi lent í hreyflunum og þeir því stöðvast. Kafarar leituðu enn að hreyflunum í morgun á árbotninum.

Stór krani á pramma við flak Airbus-þotunnar í New York …
Stór krani á pramma við flak Airbus-þotunnar í New York í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert