Þjóðin fái vald til að knýja fram þingrof


Forseti Lettlands, Valdis Zatlers, hefur hótað að leysa upp þing landsins innan þriggja mánaða ef það samþykkir ekki lög sem gera kjósendum kleift að knýja fram þingrof og kosningar.

Zatlers hótaði þessu eftir að alvarleg efnahagskreppa leiddi til mestu óeirða í landinu frá því að það fékk sjálfstæði árið 1991. Um 10.000 manns tóku þátt í mótmælum gegn stjórn Lettlands á þriðjudaginn var og til átaka kom við lögreglu þegar tugir mótmælenda reyndu að ráðast inn í þinghúsið í Riga. Lögreglan beitti táragasi og kylfum gegn mótmælendum, sem köstuðu grjóti og brutu rúður í opinberum byggingum. Yfir 40 manns slösuðust, flestir þeirra mótmælendur, en einnig sex lögreglumenn og átta herlögreglumenn. Nær 130 mótmælendur voru handteknir.

Mótmælin og óeirðirnar vöktu efasemdir um að ríkisstjórn mið- og hægriflokkanna væri fær um að knýja fram erfiðar sparnaðaraðgerðir sem hún samþykkti í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í desember til að verja gengi gjaldmiðils landsins, latsins, sem er tengdur við evruna. Takist Lettum ekki að leysa efnahagsvandann og neyðist þeir til að fella gengi latsins er óttast að það valdi titringi í öðrum löndum í austanverðri Evrópu sem hafa fest gengi gjaldmiðla sinna við evruna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert