Dó úr kulda heima hjá sér

93 ára Bandaríkjamaður dó úr kulda á heimili sínu í Michigan ríki í Bandaríkjunum fyrir nokkrum dögum. Krufning leiddi þetta í ljós, en maðurinn lést fáeinum dögum eftir að borgaryfirvöld létu minnka streymi rafmagns inn í húsið vegna þess hve maðurinn skuldaði rafmagnsveitunni mikið.

Maðurinn, Marvin E. Schur, hlaut „hægan, kvalafullan dauðdaga“ að sögn sérfræðings sem krufði líkið.

Nágrannar Schur komu að honum látnum 17. janúar síðastliðinn. Hiti í húsi hans var þá við frostmark, að þeirra sögn, sem vitnað er til í blaðinu The Bay City Times í dag.

Schur var barnlaus en eiginkona hans lést fyrir nokkrum árum. Hann átti ógreidda rafmagnsreikninga uppá um það bil 1.100 dollara að sögn eins nágranna hans.

Þann 13. janúar sl. komu menn á vegum rafveitunnar upp tæki utan við hús Schur í þeim tilgangi að takmarka hve mikið rafmagn væri hægt að nota í húsinu. Það virkar þannig að ef notkun fer upp fyrir ákveðið magn slær rafmagnið út. Fram kom í dag að óljóst er hvort einhver kenndi Schur hvernig ætti að koma rafmagni á aftur ef öryggi slær út vegna þessa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert