Skjóta rauðref til að vernda tófu

Rebbi í ætisleit.
Rebbi í ætisleit. mbl.is/Jónas Erlendsson

Norðmenn nota ýmsar aðferðir til vernda hvíta heimskautarefinn sem er í útrýmingarhættu þar í landi. Meðal annars hefur rauðrefur verið skotinn í stórum stíl.

Um 50 fullorðnir heimskautarefir eru eftir í Noregi, svonefnir fjallarefir, þar af um tuttugu á Varangerskaganum í Finnmörku. Fram kemur í dagblaðinu Aftenposten að mikil áhersla er lögð á að vernda stofninn sem talinn er í útrýmingarhættu og ýmis ráð notuð.

Norska umhverfisráðuneytið ver um fimm milljónum norskra króna til vöktunar á fjallarefnum, sem svarar til nærri því níutíu milljóna íslenskra króna. Meðal annars eru stundaðar umfangsmiklar rannsóknir og unnið er að verndun hans með sérstakri aðgerðaáætlun, þeirri fyrstu sem útbúin er í Noregi fyrir dýr í útrýmingarhættu. „Þetta er ný leið til að hafa áhrif. Við teljum að fjallarefurinn sé nauðsynlegur í norskri náttúru og inngrip sé nauðsynlegt,“ sagði Ove Bakken í umhverfisráðuneytinu norska við Aftenposten.

Hvíti norski refurinn var  veiddur vegna skinnanna og fækkaði í stofninum vegna þess. Nú hefur rauðrefurinn mun meiri útbreiðslu enda er hann duglegri að bjarga sér í nábýli við manninn.

Síðustu fjögur árin hafa um 640 rauðrefir verið skotnir á Varangerskaga. Háskólinn í Tromsö greiðir veiðimönnum 750 norskar krónur fyrir skottið. Líkur eru leiddar að því að það sé ástæðan fyrir því að hvíta refnum er nú aftur farið að fjölga á skaganum.

Fleiri ráð eru notuð. Meðal annars hafa verið gerðar tilraunir til að ala upp tófuhvolpa og sleppa út í náttúruna á tveimur stöðum.

Tófur má finna um allar Norðurslóðir. Stofninn er í útrýmingarhættu í Svíþjóð, Finnlandi og á eyjunum við austur Síberíu, auk Noregs. Stofninum var útrýmt með veiðum á Jan Mayen og Bjarnarey snemma á síðustu öld. Annars staðar, frá norðurhluta Rússlands, austur Síberíu, Alaska og á heimskautasvæði Kanada er stofninn í góðu ástandi. Einnig á Grænlandi, Íslandi og Svalbarða. 

Hér á landi er refurinn veiddur í þeim tilgangi að halda stofninum í jafnvægi og koma í veg fyrir að hann leggist á sauðfé.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert