Daschle dregur sig í hlé

Tom Daschle, sem var heilbrigðisráðherraefni Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, dró sig til baka í kvöld vegna vandamála, sem komið hafa upp vegna skattframtala hans.

Fyrr í dag dró Nancy Killefer, sem átti að taka við nýju embætti sem hefur eftirlit með stjórnsýslu, sig í hlé, einnig vegna skattamála. 

Ýmis vandamál hafa komið upp í tengslum við þá sem Obama hefur útnefnt í embætti í ríkisstjórn sinni.  David Axelrod, aðstoðarmaður Obama, sagði í kvöld að Daschle hefði ekki átt annars úrkosti en að draga sig í hlé vegna þess að ljóst var orðið, að staðfestingarferlið í þinginu yrði langt og flókið. Hins vegar liggi á að hefjast handa við að koma stefnumálum Obama í heilbrigðismálum fram.

Axelrod sagði, að Daschle væri einn helsti sérfræðingur í heilbrigðismálum og þess vegna hefði forsetinn útnefnt hann í embættið. 

Daschle bað í gær þingmenn afsökunar á mistökum, sem hann sagðist hafa gert þegar hann taldi ekki fram hlunnindi, bíl og einkabílstjóra, sem hann naut þegar hann starfaði hjá einkafyrirtæki árið 2004. Hann sagðist hafa greitt 124 þúsund dala skattaskuld auk 12 þúsund dala í vexti.  

En Daschle ákvað síðar að hætta við að gefa kost á sér í ráðherraembættið og Obama reyndi ekki að telja honum hughvarf.   Fram að því hafði forsetinn ítrekað lýst yfir stuðningi við Daschle. 

Tom Daschle.
Tom Daschle. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert