Óafsakanlegar tafir öldunganna

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, er orðinn óþreyjufullur eftir samþykki þingsins …
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, er orðinn óþreyjufullur eftir samþykki þingsins fyrir aðgerðapakka í efnahagsmálum. LARRY DOWNING

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að tafir öldungadeildar þingsins, við að samþykkja 900 milljarða dollara aðgerðapakka hans í efnahagsmálum, séu bæði óafsakanlegar og óábyrgar. Hann er nú orðinn mjög óþolinmóður í bið sinni eftir því að aðgerðirnar komist til framkvæmda. Frá þessu er greint á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Obama lýsir ástandinu í efnahagsmálum sem "áríðandi og vaxandi hættuástandi", sem gæti orðið að stórslysi ef öldungadeildin bregst ekki við. Á meðal þess sem aðgerðaáætlunin felur í sér eru skattalækkanir og fjárfestingar í því að skapa fleiri störf. Þingmenn úr röðum beggja flokka vestanhafs hafa talað fyrir því að aðgerðirnar þurfi að skera niður um allt að níutíu milljarða dollara. Um 600.000 Bandaríkjamenn misstu vinnuna í janúar síðastliðnum, en Obama lýsir því sem hrikalegu. ,,Ástandið gæti ekki verið alvarlegra. Þessar tölur æpa á aðgerðir," sagði hann.

Þessi ummæli Obama lét hann falla þegar hann afhjúpaði nýtt ráð efnahagsráðgjafa, þar sem Paul Volcker, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna gegnir formennsku. ,,Ég skipaði þetta ráð til þess að hygla röddum sem ekki koma innan úr ,,bergmálssalnum" í Washington og til þess að tryggja að öllum steinum verði snúið við í leitinni að leiðum til að halda fólki í vinnu og koma efnahagnum aftur af stað," sagði forsetinn.

Búist er við því að öldungadeildin kjósi um ,,efnahagsörvunarfrumvarpið" í dag, en sem stendur er um þriðjungur þess fólginn í skattaívilnunum en hitt í framkvæmdafé fyrir ýmis stoðkerfi, svo sem vegagerð og fleira. Repúblikanar og miðjumenn í Demókrataflokknum vilja sumir hverjir minnka eyðsluna sem felst í frumvarpinu, en án stuðnings þeirra gæti farið svo að það nái ekki í gegnum öldungadeildina.

Fulltrúadeildin, neðri deild Bandaríkjaþings, samþykkti sína útgáfu af aðgerðapakkanum í síðustu viku, upp á 825 milljarða dollara, án þess að fá nokkurn stuðning frá repúblikönum þar. Ef öldungadeildin samþykkir frumvarpið, þurfa þessar tvær útgáfur af því að verða samræmdar í sameiginlegri nefnd beggja deilda þingsins áður en það fer í endanlega atkvæðagreiðslu. Obama hefur lýst því yfir að hann vilji sjá frumvarpið afgreitt fyrir 16. febrúar næstkomandi.

Paul Volcker, fyrrverandi Seðlabankastjóri Bandaríkjanna fer fyrir ráðgjafarnefnd sem er …
Paul Volcker, fyrrverandi Seðlabankastjóri Bandaríkjanna fer fyrir ráðgjafarnefnd sem er Obama innan handar í efnahagsmálum. TIM CHONG
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert