Grænlenskur barnaníðingur fær tvö ár

Frá Grænlandi
Frá Grænlandi

Hans Sommer, 64 ára gamall HIV-smitaður maður á Grænlandi, hlaut síðastliðinn föstudag tveggja ára dóm fyrir kynferðisbrot. Sommer sætti ákæru vegna tíu mála, þar sem hann sat fyrir dómi á föstudag. Þetta kemur fram á fréttavefnum Sermitsiaq. Sakarefni voru að Sommer hefði káfað á fórnarlömbum sínum, sært blygðunarkennd þeirra og að hann hefði blekkt og þvingað stúlkur undir lögaldri, 11-15 ára gamlar, til kynmaka.

Frá janúar 2006 var það á vitorði lögreglunnar að maðurinn hefði áreitt þrettán ára gamla stúlku í Nuuk. Þangað til í október á síðast ári lokkaði maðurinn börn til þess að sniffa kveikjaragas eða drekka vodka heima hjá honum. Eftir það reyndi hann að kyssa þau og klæða þau úr buxunum. Alls hefur lögreglan yfirheyrt 15 stúlkur vegna málsins. Hópur þeirra bar vitni gegn honum fyrir dómnum og sagði frá því, hvernig hann meinaði þeim útgöngu með því að sperra viðarkubb fyrir útidyrnar.

Hinn ákærði svaraði því til að hann hefði einfaldlega vilja hjálpa stúlkunum með því að veita þeim samastað, þar sem þær gætu sofið. ,,Ég vildi bara hátta þær í rúmið og ætlaði bara að liggja í sama rúmi," sagði hann. Dómstóllinn í Nuuk dæmdi hann sem fyrr segir til tveggja ára fangelsisvistar.

Hinn dæmdi hefur margoft áður verið dæmdur fyrir lögbrot, á árunum 1974 til 2002, meðal annars fyrir tilraun til manndráps, nauðgun og ekki síst fyrir margvíslega aðra kynferðisglæpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert