Fangar á flótta

Fangar - myndin er ekki tekin í fangelsinu þaðan sem …
Fangar - myndin er ekki tekin í fangelsinu þaðan sem fangarnir tveir struku Reuters

Tveir fangar, sem sprengdu sér leið út úr frönsku fangelsi í gær, eru á leiðinni til Belgíu ef marka má fregnir af ferðalagi þeirra, að sögn lögreglunnar. Fangarnir, sem báðir eru með þunga dóma á bakinu, tóku tvo verði sem gísla á flóttanum en hafa látið þá lausa. Þeir tóku síðan tvo aðra gísla í morgun en hafa einnig látið þá lausa.

Talið er að flóttamennirnir séu vopnaðir skammbyssu en þeir sprengdu sér leið út úr fangelsinu með sprengiefni sem var smyglað til þeirra í fangelsið. Höfðu þeir tvo fangaverði með á flóttanum í gær en slepptu þeim í nágrenni Parísar. Höfðu þeir stolið bifreið á flóttanum. Í morgun rændu þeir manni og barnabarni hans í bænum Amiens og neyddu þá til þess að aka með sig um 70 km leið í átt að belgísku landamærunum. Að því búnu slepptu þeir þeim heilum á húfi og stálu annarri bifreið en skyldu skelfingu lostinn eiganda bifreiðarinnar eftir.

Annar mannanna, Christophe Khider, 37 ára, var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 1999 fyrir vopnað rán þar sem einn gísl lést. Auk þess var 30 árum bætt við dóminn eftir misheppnaða flóttatilraun hans úr fangelsinu.

Hinn maðurinn er þrítugur að aldri, Omar Top El Hadj, sem var dæmdur fyrir aðild að skotbardaga við lögreglu.

Sérsveit frönsku lögreglunnar, GIPN, leitar nú fanganna og hafa vegatálmar verið settir upp auk þess sem þyrlur sveima um við landamærin.

Fangelsið sem tvímenningarnir flúðu úr, Moulins, á að vera sérstakt öryggisfangelsi en þrátt fyrir það þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem fangar flýja þaðan. Þann 9. júní árið 2009 flúðu þrír fangar á þyrlu sem kom og sótti þá á þak fangelsisins. 12. febrúar 2003 flúðu þrír fangar til viðbótar með því að sprengja sér leið út úr fangelsinu með sprengiefni sem smyglað var til þeirra.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert