Fjölmenn mótmæli í Dublin

AP

Tæplega 100 þúsund manns komu saman í miðborg Dublin í dag og mótmæltu aðgerðum ríkisstjórnar landsins vegna kreppunnar. Mikil reiði ríkir hjá írsku launafólki vegna áforma stjórnvalda um aukna skattheimtu.

Talsmenn verkalýðsfélaga gagnrýna aðgerðir stjórnvalda harðlega. Þeir segja að verkalýðurinn hafi ekki orsakað kreppuna en þurfi engu að síður að borga brúsann.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnar Írlands segir að þurft hafi að taka erfiðar og á stundum sársaukafullar ákvarðanir. Fyrirhuguð skattlagning sé óhjákvæmileg. Tekjur hins opinbera dugi einfaldlega ekki lengur fyrir útgjöldum til almannaþjónustu.

Talsmenn verkalýðshreyfingarinnar krefjast réttlátari aðgerða af hálfu hins opinbera. Það sé forgangsmál að huga að almenningi í landinu, fólkinu sjálfu en ekki stórfyrirtækjum eða auðmönnum.

Einn mótmælenda sagðist búinn að fá nóg af ríkisstjórn landsins og kolröngum ákvörðunum hennar.

„Ég hef stritað allt mitt líf. Ég hef aldrei brotið lög, aldrei tekið þátt í mótmælum fyrr. Ég hef sinnt mínu starfi samviskusamlega. Ég þarf að standa við mínar skuldbindingar, fæða börnin og klæða og standa straum af skólagöngu þeirra.En aftur og aftur er mér sagt að ég þurfi að draga saman.“

Hagvöxtur í Írlandi hefur síðustu ár verið hvað mestur í aðildarlöndum Evrópusambandsins en frá september 2008 hefur kreppan komið harðar niður á Írum en nokkurri annarri Evrópusambandsþjóð.

Atvinnuleysi hefur aukist hröðum skrefum í landinu en í janúar voru 326 þúsund Írar skráðir atvinnulausir. Slíkar tölur hafa ekki sést í Írlandi frá upphafi mælinga, árið 1967.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert