Evrópuríki funda um kreppuna

Angela Merkel tekur á móti Brown, Darling og fleiri breskum …
Angela Merkel tekur á móti Brown, Darling og fleiri breskum ráðamönnum í Berlín í dag. Reuters

Leiðtogar helstu Evrópuríkja hittust í Berlín í dag til að reyna að finna sameiginlega nálgun í því hvernig best sé að takast á við hinna dýpkandi efnahagskreppu í álfunni. Á bak við tjöldin hafa menn verið ósammála um hvernig best sé að glíma við vandann.

Leiðtogar frá Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Hollandi reyna nú að búa til samræmda stefnu fyrir fund 20 ríkja stærstu hagkerfa heims (G20) sem haldinn verður í Lundúnum í byrjun apríl. Ríkin eru undir þrýstingi um að byggja áfram á samþykktum G20 ríkjanna frá því í nóvember en þá hittust þau í Washington og mótuðu aðgerðaráætlun vegna efnahagslægðarinnar sem nú ríður yfir heimsbyggðina.

Síðan hefur kreppan ekkert gert nema dýpkað sem hefur ýtt á einstaka stjórnvöld að koma fram með stóra aðgerðarpakka í flýti. Það hefur aftur skyggt á áform um endurbætur á sjálfu alþjóðahagkerfinu.

Aðgerðarpakkar þjóðanna hafa ýtt undir ótta um að hver hugi fyrst og fremst að sínu sem gæti hindrað áform um að koma fram með sameiginlega evrópska stefnu í málinu.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er gestgjafi fundarins í Berlín en undangengna viku hefur athygli manna beinist að efnahagsvandanum í mið- og austur Evrópu. Menn óttast að hann muni leiða til falls bankastofnana í vesturhluta álfunnar.

Nicolas Sarkozy, frakklandsforseti, lagði áherslu á að hann myndi ekki samþykkja „veikbyggða málamiðlun eða ódýrar reddingar" þegar kæmi að sameiginlegri stefnu Evrópulandanna. „Þungi og dýpt efnahagskreppunnar kallar á grundvallarbreytingar," sagði hann. „Við þurfum að byggja upp kapítalismann frá grunni og gera hann siðlegri...þess vegna vil ég sjá raunveruleg viðbrögð (í Berlín)."

Merkel jók einnig á þrýstinginn fyrir fundinn þegar hún kallaði eftir öflugra eftirlitskerfi og yfirsýn yfir fjármálamarkaði. „Það mega ekki vera gloppur" í alþjóðlegu eftirliti með fjármálageiranum, sagði hún.

Fjármálaráðherra Þýskalands sagði í gær að landið myndi þrýsta á um endurbætt regluverk sjóða og betra matskerfi til að forðast frekara hrun í framtíðinni. Þýskir ráðamenn hafa einnig sagt að þeir vilji að mótuð verði „útgönguáætlun" sem verði tilbúin þegar kreppan fer að gefa sig.

Evrópska embættismenn grunar að sá ásetningur Breta að herða regluverkið fyrir fjármálamarkaði gæti verið að dvína, þar sem Bretar óttast að staða Lundúna sem óumdeilanleg fjármálamiðstöð Evrópu hafi veikst. Gordon Brown, forsætisráðherra Breta sagði hins vegar í vikunni að heimurinn ætti eftir að sjá „fordæmislausa samvinnu" næstu fimm mánuði um að ná tökum á ástandinu.

Hann hefur kallað eftir að leiðtogar heims geri með sér samkomulag um að styðja við alþjóðahagkerfið. Fyrir fundinn í apríl leggja Bretar áherslu á að komið verði af stað lánveitingum til að ýta við atvinnulífi, að verndarstefnu verði hafnað, að alþjóðlegt regluverk fjármálamarkaða verði endurbætt og að skattaskjól auðmanna verði brotin niður.

Í athugasemd í the Observer í dag kallar Brown eftir „endurbættu og ábyrgara bankakerfi" í kjölfar gríðarmikils stuðnings sem breskir bankar hafa fengið frá ríkinu. „Bankarnir verða að hegða sér í samræmi við langtímahagsmuni hluthafa sinna og um leið efnahagskerfisins í heild, en ekki skammtímahagsmuni bankamannanna sjálfra. Það verður að vera grunnurinn sem nýtt kerfi byggist á," skrifar Brown.

Á G20 fundinum í apríl mun Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB hafa orð fyrir Evrópusambandsríkjunum en auk hans verða á fundinum Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu og Mirek Topolanek, forsætisráðherra Tékkóslóvakíu, sem fer fyrir Evrópusambandinu þetta misserið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert