Lögreglumenn réðust á 15 ára stúlku

Paul Schene dregur stúlkuna á hárinu út úr klefanum.
Paul Schene dregur stúlkuna á hárinu út úr klefanum. AP

Saksóknarar í Seattle í Bandaríkjunum hafa birt myndskeið, sem sýnir lögreglumann slá 15 ára gamla stúlku og beita hana ýmiskonar ofbeldi inni í fangaklefa. Lögreglumaðurinn hefur verið ákærður fyrir að beita óhóflegu valdi.

Stúlkan var handtekin vegna gruns um að hún tengdist bílþjófnaði. Tveir lögreglumenn fylgdu henni inn í fangaklefa og stúlkan sparkaði þá af sér öðrum skónum í áttina að lögreglumönnunum.

Paul Schene, 31 árs gamall lögreglumaður, réðist þá á stúlkuna inni í klefanum, virðist sparka í hana, rífa hana niður á hárinu og slá hana tvívegis í andlitið. Hann dregur hana síðan út úr klefanum á hárinu eftir að hafa handjárnað hana.

Hinn lögreglumaðurinn, sem er lærlingur, var ekki ákærður.

Fram kemur í málsskjölum, að stúlkan hefði kvartað um öndunarerfiðleika á eftir og voru læknar kallaðir til.

Schene lýsti sig saklausan af ákærunni. Verjendur hans kröfðust þess að myndskeiðið yrði ekki sýnt þar sem það myndi valda ólgu meðal almennings og grafa undan rétti lögreglumannsins um hlutlausa dómsmeðferð.

Myndskeiðið í heild

Myndir úr myndskeiðinu sýna Paul Schene misþyrma stúlkunni.
Myndir úr myndskeiðinu sýna Paul Schene misþyrma stúlkunni. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert