Erfitt ár fyrir Kínverja

Wen Jiabao
Wen Jiabao AP

Árið 2009 verður það erfiðasta í Kína það sem af er þessari öld vegna alþjóða fjármálakreppunnar, að sögn forsætisráðherra landsins Wen Jiabao.

Í ræðu sinni á kínverska þinginu tilkynnti Wen að jafnvirði 585 milljarða bandaríkjadala yrði eytt í aðgerðir til að örva kínverskt efnahagslíf. Vonaðist hann til að með þessu mæti skapa níu milljónir nýrra starfa og bæta fjárhagsáætlun héraðsstjórna um 25%.

„Í Kína, ríki sem er í þróun og er með 1,3 milljarð íbúa, er nauðsynlegt að viðhalda vissum hagvexti fyrir vaxandi vinnumarkað í sveit og borg svo halda megi áfram að bæta tekjur fólks og viðhalda þjóðfélagslegu jafnvægi,“ sagði Wen í ræðu sinni.

Segir BBC Wen hafa viðurkennt að efnahagsástand í heiminum hefði áhrif á Kína og að í landinu skorti nægilega sterkt heilbrigðis- og félagslegt kerfi.

Upphæðin sem Wren sagði eiga að örva efnahagslífið er sú sama og tilkynnt var um í nóvember. Ekki virðist því til standa að auka hana líkt og margir höfðu talið að yrði gert.

Vonir um að kínversk stjórnvöld myndu auka þetta fjármagn urðu þess valdandi að verðbréf víða um heim hækkuðu í verði áður en Wen hélt ræðu sína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert