Krefst endurbóta á heilbrigðiskerfinu

Barack Obama Bandaríkjaforseti kynnti í gær markmið sitt um heilbrigðisþjónustu fyrir alla, slíkt væri mikilvægt pólitískt séð ekki síður en efnahags- og siðferðilega. Bandaríkjamenn, hefur Boston Globe eftir Obama, sætta sig ekki lengur við svimandi háan kostnað sem hefur gert milljónir fjölskyldna gjaldþrota, lamað fyrirtæki og skyggt á aðrar almennar þarfir.  

Heilbrigðismálin eru einn þeirra málaflokka sem hvað mestar deilur eru um í Bandaríkjunum, enda djúp gjá milli þeirra sem vilja ríkisrekna heilbrigðisþjónustu og þeirra sem geta hugsað sér fátt verra en ríkisvæðingu heilbrigðisþjónustunnar.

Á fundi sem haldinn var í Hvíta húsinu, játaði Obama að áratugum saman hefði það reynst stjórnmálamönnum illmögulegt að bjóða öllum almenningi upp á góða heilbrigðisþjónustu á viðráðanlegu verði.  Almenningur væri hins vegar ekki tilbúinn að sætta sig við slíkt lengur og lýsti hann bréfum þess efnis sem að sér hefðu borist og sögum sem hann hefði heyrt í kosningabaráttu sinni. Þegar krafan um að stjórnvöld í Washington gerðu eitthvað í málunum færi svo vaxandi gætu sérhagsmunaöfl ekki lengur hindrað aðgerðir.

„Þetta er tíminn, krafan um endurbætur kemur frá grasrótinni og öllum stéttum - frá læknum, hjúkrunarfræðingum, sjúklingum; frá stéttarfélögum og fyrirtækjum; frá sjúkrahúsum, heilbrigðisstarfsfólki og hópum í samfélaginu,“ sagði forsetinn. „Þetta er ekki tíminn til að deila um hvort að allir Bandaríkjamenn eigi rétt á góðri heilbrigðisþjónustu á viðráðanlegu verði - eina spurningin er hvernig?“ 

Obama ítrekaði þó að þörf væri á málamiðlunum. Hann myndi hins vegar ekki sætta sig við að ekkert breyttist, slíkt ógnaði undurstöðum efnahags þjóðarinnar.

„Þeir sem að reyna að hindra allar breytingar ... munu ekki fara með sigur af hólmi í þetta skipti.“

Barack Obama segir alla Bandaríkjamenn eiga rétt á góðri heilbrigðisþjónustu …
Barack Obama segir alla Bandaríkjamenn eiga rétt á góðri heilbrigðisþjónustu á viðráðanlegu verði. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert