Bandaríkin berskjaldaðri undir Obama

Dick Cheney, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, er lítt hrifinn af aðgerðum …
Dick Cheney, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, er lítt hrifinn af aðgerðum Obama. AP

Bandaríkin eru berskjaldaðri fyrir árásum eftir að Barack Obama settist á forsetastólinn. Þetta er mat Dick Cheney, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, sem varði eigin hlutverk í stríðinu gegn hryðjuverkum í viðtali á sjónvarpsstöðinni CNN í dag.  

Kvaðst Cheney telja að Obama hafi gert Bandaríkin berskjaldaðri fyrir árásum með gagngerri breytingu á stefnu síðustu stjórnar í baráttunni gegn hryðjuverkum. Fordæmdi Cheney ákvörðun Obama að loka Guantanamo fangabúðunum og leynilegum fangabúðum CIA erlendis og að banna harkalegar yfirheyrsluaðferðir. Var þetta fyrsta sjónvarpsviðtali Cheneys frá því hann yfirgaf embætti varaforseta.

Meðal nýjustu aðgerða Obama til að afnema stefnu Bush-stjórnarinnar er að þeir sem grunaðir eru um hryðjuverk eru ekki lengur skilgreindir sem óvinveittir árásarmenn og þá hét forsetinn því að alþjóðalög yrðu virt í stjórnsýslu Guantanamo fangabúðanna.  

„Ég tel að þessir þættir hafi verið með öllu nauðsynlegir til að við næðum þeim árangri  sem að við náðum við öflun upplýsinga og hafa gert okkur kleift að koma í veg fyrir allar frekari tilraunir til árása á Bandaríkin eftir árásirnar 11. september,“ sagði Cheney. „Ég tel okkur hafa náð frábærum árangri. Þetta var löglegt. Þetta féll innan hefða og meginreglu stjórnarskrár okkar.“ 

 Cheney viðurkenndi að hann hefði þrýst á George W. Bush, þáverandi forseta, að ganga harðar fram gegn Íran og Norður-Kóreu og kvað stöðu mála í Írak í dag sýna hve rétt stefnan hefði verið.

Val Obama á Christopher Hill sem sendiherra Bandaríkjanna í Írak, vakti þá jafn litla hrifningu hjá Cheney, enda naut Hill er hann var helsti samningamaður Bandaríkjanna í kjarnorkudeilunni við Norður-Kóreu lítils stuðnings hjá Cheney.

„Þetta er ekki maðurinn sem að ég hefði valið í þetta starf. Hann hefur enga reynslu af því að starfa á þessu svæði. Hefur aldrei unnið í þessum heimshluta og talar ekki málið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert