Páfinn vill vefja örmum sínum um Afríku

Benedikt sextándi, sem hét Joseph Ratzinger áður en hann varð …
Benedikt sextándi, sem hét Joseph Ratzinger áður en hann varð páfi. MAX ROSSI

Benedikt sextándi páfi er nú að leggja upp í vikuferð til Afríku, en hann hefur lýst því yfir að í ferðinni vilji hann vefja örmum sínum utan um alla heimsálfuna og „sársaukafull sár hennar, gífurlega möguleika og vonir.“ Sagt er frá ferðinni á fréttavef BBC.

Heimsóknin byrjar í Angóla og Kamerún, þar sem búist er við þúsundum manna á útimessur sem páfinn ætlar að halda. Fréttamaður BBC í Kamerún segir að íbúar höfuðborgarinnar, Yaounde, séu nú að sópa og hreinsa hvert sem litið er, til að undirbúa fyrir heimsóknina. Þar verður Benedikt þangað til á föstudag og hittir þar biskupa frá gervallri Afríku. Þeir munu svo taka þátt í fundi í Vatíkaninu seinna á þessu ári, þar sem hlutverk kirkjunnar í Afríku verður rætt.

Í Angóla ætlar páfinn að hitta embættismenn í Luanda og búist er við því að þar hvetji hann alþjóðasamfélagið til að yfirgefa ekki Afríku. Staðsetningin fyrir slíka ræðu verður þá vel valin enda er landið að jafna sig eftir 27 ára langt borgarstríð. Einnig mun hann þar ræða við ungt fólk um HIV-faraldurinn og útskýra af hverju kaþólska kirkjan mæli með skírlífi frekar en notkun smokka, sem bestu leiðina til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.

Einnig mun Benedikt funda einslega með leiðtogum þessara tveggja ríkja, sem hafa verið sakaðir um spillingu og ábyrgðarlausa eyðslu tekna af náttúruauðlindum.

Kaþólikkum fer fjölgandi í Afríku samkvæmt talningum Vatíkansins, en árið 2006 voru 17% Afríkubúa skírðir til kaþólskrar trúar, samanborið við 12% árið 1978.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert