AIG látið skila risabónusum

Bandaríska tryggingafélagið AIG verður látið borga til baka hina umdeildu bónusa sem það veitti stjórnendum sínum eftir að hafa tekið við 180 milljörðum dollara frá hinu opinbera til að verjast hruni. Þetta er haft eftir Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna á fréttavef BBC.

Í bréfi sem Geithner sendi þingmönnum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings segir einnig að 165 milljónir dollara, sama upphæð og bónusarnir hljóða upp á, verði dregin frá 30 milljarða dollara útborgun, sem myndar næsta hluta aðstoðarinnar. Geithner hefur undanfarið verið gagnrýndur fyrir að taka ekki harðar á þessu máli, sem orðið er að miklu hneyksli í Bandaríkjunum. Repúblikanar á þingi segja einnig að hann hefði átt að bregðast fyrr við bónusgreiðslunum.

Stjórnmálamenn vestanhafs hafa ólmir viljað gagnrýna bónusana, og sagði einn þingmaður meira að segja að stjórnendur AIG ættu að fyrirfara sér, áður en hann tók þá yfirlýsingu sína snögglega til baka.

Ekki minnkaði reiðin heldur í gær, þegar stjórnmálamenn fengu bréf frá dómsmálaráðherranum í New York fylki, Andrew Cuomo. Þar greindi hann frá því að 73 stjórnendur, þar af ellefu sem vinna ekki lengur hjá AIG, hafi í síðustu viku fengið bónusa að andvirði meira en milljón dollara hver. Áður en Geithner gaf út sína yfirlýsingu í gær hafði Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, sagt að nokkrar þingnefndir væru að skoða möguleikann á því að segja lög til þess að endurheimta þetta fé frá AIG.

Demókratar í öldungadeildinni skrifuðu forstjóra AIG, Edward Liddy, einnig bréf í gær og kölluðu á hann að skila bónusunum. ,,Ef ekki verður samið upp á nýtt um þessa kaupauka, munum við grípa til aðgerða til að bæta amerískum skattgreiðendum tapið með því að endurheimta alla bónusana sem AIG hefur greitt út til fjármálaarms síns," sagði í bréfinu. Liddy segir hins vegar að bónusarnir hafi verið greiddir út til þess að standa við samninga sem AIG gerði áður en virði félagsins hrundi í fjármálakreppunni.

Liddy mun bera vitni fyrir þingnefnd í dag, en búist er við því að hann muni þar þurfa að svara ansi erfiðum spurningum.

Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna.
Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert