Tugir slasast í átökum nema og lögreglu

Tugir stúdenta og lögreglumanna slösuðust í óeirðum sem brutust út við háskóla í Barcelona á Spáni í dag. Ofbeldið kom upp þegar stúdentar mótmæltu fyrirætlunum stjórnvalda um breytingar á menntakerfinu, en 24 stúdentar og 32 lögreglumenn slösuðust. Þær upplýsingar eru fengnar frá talsmanni almannavarna í borginni.

Átök urðu reyndar fyrst í gærmorgun, þegar lögregla rýmdi svæði þar sem stúdentar mótmæltu. Þá handtók lögreglan nítján manns, sem var sleppt úr haldi síðar sama dag gegn tryggingu. Ofbeldið hélt svo áfram þegar stúdentar mótmæltu lögregluofbeldinu í nótt.

Talsmenn stúdenta segja að um 5.000 manns hafi mætt á mótmælin, en lögregla segir þá tölu hins vegar helmingi lægri. Stúdentaráð við háskólann sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem það fordæmdi hrottaskap lögreglunnar og sagði aukningu í lögregluaðgerðum gegn stúdentum.

Lögreglustjóri Katalóníu ásakar stúdenta hins vegar um að vera mjög ofbeldisfullir í viðbrögðum sínum við lögregluaðgerðum. Mótmælin byrjuðu strax í nóvember, en þau má rekja til svokallaðrar Bologna-áætlunar Evrópusambandsins, sem gengur út á breytingar á evrópskum háskólum, og vakið hefur hörð viðbrögð víða um álfuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert