28 slasaðir eftir átök í Ísrael

Hægrisinnar veifuðu ísraelskum fánum er þeir gengu um arababæinn Umm …
Hægrisinnar veifuðu ísraelskum fánum er þeir gengu um arababæinn Umm El-Fahm í Ísrael í morgun AP

Fjórtán lögreglumenn og tólf ísraelskir arabar slösuðust í átökum lögreglu og mótmælenda í bænum Umm al-Fahm í Ísrael í dag. Mótmælendurnir voru að mótmæla göngu hægri öfgasinna um heimabæ þeirra sem er stærsti bær araba í Ísrael. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Átökin hófust er arabar og vinstrisinnar söfnuðust saman til að mótmæla göngu hægrimanna í bænum í morgun en lögregla hafði lýst fjöldasamkomur araba óleyfilegar í bænum í dag.

Ganga hægrimannanna hafði hins vegar verið heimiluð með úrskurði hæstaréttar landsins. Stóð ganga þeirra í þrjú korter en átök stóðu í bænum í tvo klukkutíma eftir að henni lauk.

2,500 manna aukalið lögreglu er í bænum í dag en fyrir gönguna sagði Itamar Ben-Gvir, einn af skipuleggjendum hennar, ekki koma til greina að fresta henni þrátt fyrir mikla andstöðu araba.

„Það að aflýsa göngunni myndi benda til þess að lögreglan væri gjaldþrota. Geti þeir ekki verndað okkur þá er það merki um að þeir séu ekki færir um að sinna stöðu sinni,” sagði hann.

Ben-Gvir, sem býr í Hebron á Vesturbakkanum, sagði gönguna hafa verið skipulagða fyrir ári síðan og að hún væri mikilvægur vitnisburður tjáningarfrelsis.  „Við búum í borg með 150.000 aröbum og við óttumst ekki glæpagengi í Umm al-Fahm," sagði hann. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert