Bláeygðir bankamenn ollu kreppunni

Gordon Brown og Luiz Inacio Lula da Silva í Alvorada …
Gordon Brown og Luiz Inacio Lula da Silva í Alvorada höllinni í Brasilíu í gær Stringer/Brazil

Hvítir, bláeygðir bankamenn eiga alla sök að heimskreppunni og því er ósanngjarnt hversu hart hún hefur komið niður á svörtu fólki og innfæddum minnihlutahópum, að mati forseta Brasilíu.

Luiz Inacio da Silva lýsti þessu yfir við fjölmiðla í gær þar sem hann stóð við hlið Gordon Brown, í opinberri heimsókn þess síðarnefnda til Brasilíu. Silva hét því að kveikja upp í G20 ráðstefnunni í næstu viku og sakar ríka fólkið um að leggja enn meira harðræði á þá fátæku, samkvæmt fréttavef Guardian.

„Þessi kreppa varð ekki vegna svartra manna eða kvenna, ekki vegna minnihlutahópa inndfæddra og ekki vegna hinna fátæku,“ sagði Silva. „Þessi kreppa var alin og mögnuð upp af fáránlegri hegðun nokkurra manna sem allir eru hvítir og bláeygðir. Áður en kreppan skall á litu þeir út fyrir að vita allt um hagfræði, en þeir hafa sýnt það og sannað að þeir vita í raun ekkert.“

Hann sagðist vonast eftir aðgerðum í kjölfar G20 ráðstefnunnar og sagði að leiðtogar heimsins yrðu að koma í veg fyrir að annað eins endurtæki sig. „Við höfum ekki rétt á að leyfa þessari kreppu að halda lengi áfram. Við erum staðráðin í því að tryggja að stjórn verði höfð á efnahagskerfi heimsins. Þú ferð í verslunarkjarna og ert festur á filmu, þú ferð á flugvöll og það er fylgst með hverju skrefi þínu. Ég get ekki ímyndað mér að það sé síðan ekkert eftirlit yfir höfuð með efnahagskerfinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert