Engin niðurstaða hjá NATO

Anders Fogh Rasmussen.
Anders Fogh Rasmussen. Reuters

NATO hefur ekki enn tekið ákvörðun um hver tekur við embætti  framkvæmdastjóra bandalagsins þegar Jaap de Hoop Scheffer lætur af störfum í ágúst. Talsmaður NATO segir hugsanlegt að ákvörðun verði tekin á leiðtogafundi í Strassborg síðar í vikunni en embættismenn segja það þó ólíklegt.

„Ég get ekki útilokað, en býst ekki heldur við ákvörðun um framkvæmdastjórann," sagði James Appathurai, talsmaður NATO, við blaðamenn í Haag í dag.

Leiðtogafundurinn í Strassborg er haldinn í tilefni af 60 ára afmæli NATO. Appathurai sagði að það væri ánægjulegt ef ákvörðun um framkvæmdastjóra yrði tekin þá en slíkt sé ekki á formlegri dagskrá.

Taldar eru miklar líkur á að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, taki við af Hoop Scheffer. Flest stærstu ríkin innan bandalagsins, þar á meðal Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Þýskaland eru talin styðja Fogh. Tyrkir eru hins vegar taldir andvígir honum og hafa vísað til skopmyndamálsins svonefnda í Danmörku og fleiri mála. 

Framkvæmdastjóri NATO er venjulega valinn með óformlegum hætti á bak við tjöldin í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel.  Hugsanlegir kandídatar lýsa nánast aldrei yfir vilja til að taka starfið að sér þótt Búlgarar hafi brotið gegn hefðinni nú með því að lýsa yfir framboði Solomon Passy, utanríkisráðherra landsins. 

Nöfn Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, Radoslaws Sikorski, utanríkisráðherra Póllands og Peters MacKay, varnarmálaráðherra Kanada, hafa einnig verið nefnd. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert