Karlar fá meiri völd yfir konum sínum

Konur í Afganistan
Konur í Afganistan Reuter

Hamid Karzai, forseti Afganistans, hefur verið sakaður um að reyna að afla sér atkvæða í forsetakosningunum með því að styðja lög sem að sögn talsmanna Sameinuðu þjóðanna banna konum að fara úr húsi án leyfis eiginmanna sinna og lögleiða nauðgun í hjónabandi.

Samkvæmt frétt breska blaðsins The Guardian undirritaði forsetinn lögin fyrr í þessum mánuði þrátt fyrir fordæmingar mannréttindasamtaka og nokkurra þingmanna. Öldungardeildarþingmaðurinn Humaira Namati segir lögin verri en þau sem voru í gildi í stjórnartíð talíbana.

Lögin hafa ekki verið birt en talið er að í þeim séu ákvæði sem segi að kona megi ekki fara út af heimili sínu án leyfis eiginmanns síns, að hún megi aðeins fara til vinnu, í skóla og til læknis með leyfi eiginmannsins og að hún geti ekki neitað eiginmanni sínum um kynlíf.

Samkvæmt lögunum eru það einungis feður og afar sem geta fengið forræði yfir börnum.

Mannréttindasamtök reyna nú að fá eintök af lögunum en dómsmálaráðuneytið, sem hefur staðfest að forsetinn hafi undirritað lögin, neitar að afhenda þau.  Samkvæmt dómsmálaráðuneytinu verða þau ekki birt fyrr en nokkur „tæknileg vandamál“ hafa verið leyst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert