Óeirðir í Taílandi

Fyrrverandi forsætisráðherra Taílands, sem er í útlegð, kallaði eftir byltingu í dag eftir að óeirðir brutust út í höfuðborg landsins. Mótmælendur standa upp á skriðdrekum sem hafa verið sendir út á götur borgarinnar í kjölfar þess að stjórnvöld í landinu lýstu yfir neyðarástandi.

Hópur rauðklæddra stjórnarandstæðinga hafa fjölmennt á götum úti í Bangkok. Margir þeirra réðust á bílalest Abhisit Vejjajiva, forsætisráðherra Taílands, sem náði að flýja ráðherraskrifstofur sínar fyrr í dag. Þá hafa sumir mótmælendur ráðist á og lamið ökumenn sem þeir hafa lent í orðaskaki við.

Mótmælendurnir hafa lokað a.m.k. 10 stórum gatnamótum. Þeir hafa farið inn í strætisvagna og notað þá til að loka mörgum mikilvægum umferðaræðum. Gríðarleg umferðarteppa er í borginni. Að sögn Vichai Sangparpai, lögreglustjóra í borginni, hafa um 30.000 mótmælendur tekið sér stöðu víða í borginni. 

Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, hefur kallað eftir byltingu, en flestir mótmælendanna líta á hann sem sinn leiðtoga. Thaksin hefur einnig sagt að hann muni gæti snúið aftur til landsins til að leiða byltinguna.

„Nú þegar þeir hafa sett skriðdreka á göturnar þá er kominn tími til að fólkið taki höndum saman í byltingu. Og þegar þess gerist þörf þá mun ég snúa aftur til landsins,“ sagði Thaksins í skilaboðum sem hann sendi símleiðis til stuðningsmanna sinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert