Mótmælum hætt í Bangkok

Mótmælendur yfirgefa þinghúsið í Bangkok
Mótmælendur yfirgefa þinghúsið í Bangkok Reuters

Mótmælum í Bangkok á Tailandi hefur nú verið hætt vegna þrýstings frá her landsins. Verið er að flytja stóra hópa mótmælenda, sem haldið hafa til í og við þinghús landsins undanfarnar þrjár vikur, af svæðinu. Þetta kemur fram á fréttvef BBC. 

Leiðtogar mótmælenda hvöttu fólk til að yfirgefa svæðið í morgun eftir að lögregla og her stórjuku viðbúnað sinn í nótt. Tveir létu lífið í átökum mótmælenda og lögreglu í gær. 

Mótmælendurnir sem flestir klæðast rauðum skyrtum hafa krafist afsagnar Abhisit Vejjajiva , forsætisráðherra landsins. Um helgina virtist hann vera að missa tökin á ástandinu en í gær náði hann stjórninni á ný.  

Lögregla hefur leitað vopna á mótmælendum sem hafa yfirgefið þinghúsið í morgun og síðan flutt hluta þeirra brott en lögregla hafði sextíu langferðabíla tiltæka við húsið í morgun. Aðrir mótmælendur hafa yfirgefið svæðið fótgangandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert