Æfir vegna pyntinganna

Frá Guantanamo-búðunum illræmdu.
Frá Guantanamo-búðunum illræmdu. Reuters

Bandarískir siðfræðingar eru æfir vegna uppljóstranna um hvernig staðið var að pyntingum á föngum í hryðjuverkastríðinu svokallaða. Sálfræðingar voru notaðir til að brjóta niður fanganna, á sama tíma og læknum var gert að halda í þeim lífinu undir gríðarlegu álagi.

Fjallað er um málið í bandaríska dagblaðinu Washington Post en þar segir að bandaríska leyniþjónustan, CIA, hafi um sumarið 2002 ákveðið að færa yfirheyrslur yfir Abu Zubaida á nýtt stig, með hertum aðferðum.

Fólu þær í sér að Zubaida, sem grunaður var um hryðjuverk, voru aðeins heimiluð samskipti við tvær manneskjur, fulltrúa CIA við yfirheyrslurnar og sálfræðing sem ætlað var að brjóta hann niður andlega.

Svefnleysi, vatnspyntingar og notkun skordýra til að hræða fangann voru á meðal aðferða sem sálfræðingurinn taldi ásættanlegar til að ná meiri árangri við yfirheyrslurnar. 

Athygli vekur að lögfræðingur bandaríska dómsmálaráðuneytisins skrifaði sama ár að enginn andlegur sársauki eða þjáning fylgdi aðferðunum. Verður það að teljast heldur hæpið.

Hulunni af aðferðafræðinni er svipt í leynilegum gögnum frá dögum ríkisstjórnar George W. Bush forseta sem Barack Obama úrskurðaði að gerð skyldu opinber.

Kemur þar fram að læknar, sálfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk á vegum Bandaríkjastjórnar hafi verið notað til að komast mætti hjá því að skilgreina mætti aðferðirnar sem pyntingar.

Var hlutverk læknanna meðal annars að halda líkamsstarfsemi fanganna gangandi undir hinu mikla álagi sem pyntingunum fylgdi.

„Heilbrigðisstarfsfólkið sem tók þátt í verkefni CIA braut lögin og sverti þann siðferðislega grundvöll sem læknisfræðin og sálfræðin hvílir á,“ sagði Frank Donaghue, framkvæmdastjóri samtakanna Physicians for Human Rights, læknasamtaka sem berjast fyrir mannréttindum.

„Svipta á sálfræðinga og lækna sem staðnir verða að því að hafa tekið þátt í pyntingum starfsleyfi til frambúðar,“ sagði Donaghue í harðorðri gagnrýni sinni á aðferðirnar.

Bandaríska sálfræðingafélagið hefur einnig fordæmt þátttöku sálfræðinga í pyntingunum en í skýrslu félagsins sem lekið var til New York Review of Books nýlega kom fram að fanga var í einu tilviki hótað að verða komið fyrir við dauðans dyr áður en hann yrði dreginn þaðan til baka.

Michael Hayden, fyrrverandi yfirmaður CIA, og Michael Mukasey, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hafa gagnrýnt birtingu gagnanna sem þeir telja óheppilega.

Nánar er fjallað um Guantanamo-búðirnar í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert