20 ára bitför felldu hann

Karlmaður mun bráðlega koma fyrir rétt á Ítalíu tæpum tveimur áratugum eftir að unnusta hans var myrt. Bitför á brjósti konunnar hafa nú komið upp um manninn, sem hefur verið ákærður fyrir morðið.

Raniero Busco, sem nú er 44 ára að aldri, átti í ástarsambandi við   Simonetta Cesaroni, sem fannst látin í ágúst 1990, þá 21 árs að aldri. Dánarorsökin var högg sem hún fékk á hálsinn en djúp bitför voru einnig á líkinu og konan hafði einnig verið stungin ítrekað með hnífi eftir dauða sinn.

Lögreglu hefur lengi grunað, að Busco væri sekur um morðið, en það var ekki fyrr en nýlega, sem málið var tekið upp að nýju þar sem fram var komin ný tækni í réttarlæknisfræði. Reyndust bitförin á líkinu passa við tennur Buscos.

Að sögn ítalskra fjölmiðla reyndi Busco að breiða yfir glæp sinn með því að láta líta út fyrir að kynferðisglæpamaður hefði ráðist á Cesaroni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert