Ahmadinejad: Glæpir í skjóli öryggisráðsins

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti er hann ávarpaði Durban II ráðstefnu Sameinuðu …
Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti er hann ávarpaði Durban II ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttafordóma í Genf í dag. Reuters

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti sagði m.a. er hann ávarpaði Durban II ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttafordóma í Genf í dag að gyðingar frá Evrópu og Bandaríkjunum hafi verið sendir sem innflytjendur til Miðausturlanda til að koma þar á stjórn kynþáttahaturs. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz. 

Þá sagði hann Ísraelsríki hafa verið stofnað undir yfirvarpi þjáninga gyðinga í síðari heimsstyrjöld og að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi síðan fest hernámslið þeirra í sessi á síðustu sextíu árum og veitt þeim frjálsar hendur til að halda áfram glæpum sínum.

Ahmadinejad sakaði einnig Bandaríkjamenn, Evrópubúa og Ísraela um að leika sér að því að raska jafnvægi heimsins á grundvelli síonisma og hagsmuna hergagnaframleiðenda.

„Hverjar voru grunnástæður árásanna á Írak og innrásarinnar í Afganistan,” sagði hann. „Var ekki innrásin í Írak skipulögð af síonistum innan Bandaríkjastjórnar til að friðþægja hergagnaframleiðendur?”

Fulltrúar nokkurra Evrópuþjóða gengu út af ráðstefnunni er Ahmadinejad hafði talað í u.þ.b. tíu mínútur og hefur skrifstofa Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann fordæmir ræðu Ahmadinejad.

Nóbelsverðlaunahafinn Eli Wiesel var á meðal þeirra sem mótmæltu þátttöku …
Nóbelsverðlaunahafinn Eli Wiesel var á meðal þeirra sem mótmæltu þátttöku Ahmadinejad í ráðstefnunni Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert